
FC Bayern var rétt í þessu að leggja Rosengård að velli í fyrstu umferð í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna.
Bayern átti heimaleik en Loreta Kullashi kom gestunum frá Malmö yfir í fyrri hálfleik skömmu eftir að Guðrún Arnardóttir hafði fengið gult spjald.
Guðrún lék allan leikinn í varnarlínu Rosengård á meðan Glódís Perla Viggósdóttir var allan leikinn í varnarlínu Bayern. Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ónotaður varamaður hjá Bayern.
Bayern tók völdin á vellinum eftir opnunarmarkið og jafnaði Carolin Simon fyrir leikhlé áður en Linda Dallmann tók forystuna í síðari hálfleik.
Bæjarar komust nálægt því að gera þriðja markið en það hafðist ekki og niðurstaðan sanngjarn 2-1 sigur.
Bayern 2 - 1 Rosengård
0-1 Loreta Kullashi ('25)
1-1 Carolin Simon ('35)
2-1 Linda Dallmann ('57)
Sara Björk Gunnarsdóttir lék þá allan leikinn á miðjunni hjá Juventus sem lagði FC Zürich á útivelli.
Juve var betri aðilinn nánast allan leikinn en átti í erfiðleikum með að brjóta varnarmúr Svisslendinga á bak aftur.
Valentina Cernoia tókst loks að skora á 71. mínútu og innsiglaði Barbara Bonansea sigurinn á lokamínútunum.
Zurich 0 - 2 Juventus
0-1 Valentina Cernoia ('71)
0-2 Barbara Bonansea ('85)