Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
   sun 18. janúar 2026 17:24
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Atlético jafnar þriðja sætið - Valencia úr fallsæti
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í efstu deild spænska boltans þar sem Alexander Sörloth skoraði eina mark leiksins í sigri Atlético Madrid gegn Alavés.

Norski framherjinn skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Pablo Barrios og er þar með kominn þrjú mörk í síðustu þremur byrjunarliðsleikjum. Markið gerði hann í upphafi síðari hálfleiks.

Heimamenn í Madríd stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora. Síðari hálfleikurinn var talsvert jafnari en lærlingar Diego Simeone höfðu betur þökk sé markinu hans Sörloth.

Alavés átti í erfiðleikum með að skapa sér færi svo lokatölur urðu 1-0. Atlético jafnar Villarreal á stigum í þriðja sæti með þessum sigri, á meðan Alavés er í fallsæti með 19 stig eftir 20 umferðir.

Valencia er komið upp í 20 stig eftir langþráðan deildarsigur, en liðið var án sigurs í sex umferðir fyrir þennan leik.

Valencia heimsótti Getafe og var staðan markalaus allt þar til vinstri bakvörðurinn José Gayá skoraði eftir frábært spil. Gayá gerði mjög vel að lyfta boltanum snyrtilega yfir markvörð Getafe til að klára frábæra sókn.

Getafe var sterkara liðið í fyrri hálfleik en Valencia var hættulegra í síðari hálfleiknum.

Valencia fer upp úr fallsæti með þessum sigri og er einu stigi á eftir Getafe í fallbaráttunni.

Atletico Madrid 1 - 0 Alaves
1-0 Alexander Sorloth ('48 )

Getafe 0 - 1 Valencia
0-1 Jose Gaya ('84 )
Athugasemdir
banner