Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 20. september 2022 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Blómstrað í besta liði landsins - „Vissi að ég ætti mikið inni"
Valur mætir Slavia Prag í Meistaradeildinni á morgun
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með bikarmeistaratitilinn.
Með bikarmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er besta lið landsins um þessar mundir.
Valur er besta lið landsins um þessar mundir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórdís hefur átt ótrúlega gott tímabil.
Þórdís hefur átt ótrúlega gott tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þessar næstu vikur verða fyrst og fremst skemmtilegar en um leið krefjandi'
'Þessar næstu vikur verða fyrst og fremst skemmtilegar en um leið krefjandi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á morgun er risastór leikur framundan þar sem Valur leikur við Slavia Prag frá Tékklandi í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Sigurliðið í þessu einvígi fer áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það er svo sannarlega mikið í húfi.

„Þetta leggst mjög vel í okkur, við erum spenntar fyrir því," segir Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals, um verkefnið sem framundan er.

„Við erum búnar að vera spila vel saman sem lið í síðustu leikjum og ætlum að gera það sama í þessum leik. Það gefur okkur vonandi byr undir báða vængi."

Fyrri leikurinn fer fram á Hlíðarenda á morgun og seinni leikurinn verður í Tékklandi viku síðar.

„Möguleikarnir eru 50/50, þetta er gott og vel skipulagt lið sem við höfum farið vel yfir. Liðið hefur tekið þátt í Meistaradeildinni í mörg ár og þekkir þetta stig keppninnar vel," segir Þórdís.

Spilaði í Meistaradeildinni með kýpversku félagi
Þórdís hélt á síðasta ári á vit ævintýranna á Kýpur þar sem hún lék með Apollon, sterkasta liðinu þar í landi. Hún yfirgaf Breiðablik um sumarið 2021 og hélt til Kýpur.

„Ég var ekki mikið að spila hjá Blikum en vissi að ég ætti mikið inni. Ég fékk ekki það traust sem ég hefði viljað frá þjálfarateyminu og taldi mig eiga skilið. Í framhaldi fékk ég fyrirspurn frá Kýpur og vildi því skoða það. Þjálfarinn þar vissi hver ég var og hafði áhuga á að fá mig."

Hún spilaði með Apollon í Meistaradeildinni þar sem liðið komst á það stig keppninnar þar sem Valur er núna, en liðið tapaði fyrir Kharkiv frá Úkraínu.

„Apollon var einnig að fara spila í Meistaradeildinni á þeim tíma og ég vildi taka þátt í því. Heilt yfir var þessi tími lærdómsríkur, liðið komst í 32-liða úrslit og við töpuðum gegn Kharkiv sem Blikar voru svo með í riðli. Deildarkeppnin í Kýpur var aftur á móti frekar slök og Apollon yfirburðarlið þar."

„Það kom ekki til greina að vera áfram þar og kom ég fyrr heim en ráðgert var. Það stafaði af því að mig langaði að komast að hjá betra liði og í betri deild. Ég fékk svo leyfi frá Breiðabliki til þess að tala við önnur félög."

Var ekki flókin ákvörðun
Þórdís ákvað að fara yfir til Íslandsmeistara Vals fyrir leiktíðina frá Breiðabliki sem endaði í öðru sæti síðasta sumar. Hún fann ekki fyrir trausti frá Blikum en það hefur annað verið upp á teningnum hjá Val í sumar.

„Það var ekki flókin ákvörðun. Eins og ég sagði var ég búin að fá leyfi að tala við önnur félög, þar sem ég fann ekki fyrir sterkum vilja eða löngun hjá Blikum að halda í mig. Þangað var reyndar kominn nýr og annars ágætur þjálfari, en tími minn hjá Blikum var einfaldlega á enda."

„Ég er að hluta alin upp hjá Blikum, hef átt þar góðar stundir og er þakklát fyrir það sem Breiðablik hefur gert fyrir mig. Ég fann aftur á móti fyrir miklum áhuga hjá Val og mikla trú á minni getu og hæfileikum," segir Þórdís.

„Jafnframt taldi ég mig geta gefið Val mikið. Að einhverju leyti var því um að ræða „win-win“ fyrir báða. Þegar uppi er staðið hefur þetta kannski eitthvað með hugmyndafræði og/eða leikstíl liðanna að gera, mér finnst vera meiri léttleiki í Val um þessar mundir og það hentar mér. Það eru mýmörg dæmi um að stundum ganga hlutirnir og stundum ekki og þar spilar margt inn í, til dæmis umhverfið."

Átt stórgott tímabil
Þórdís hefur blómstrað í liði Vals og verið í algjöru lykilhlutverki hjá besta liði landsins. Hver er lykillinn að þessum góða árangri?

„Það spilar margt þar inn í, að ég held; hvernig leikmenn og þjálfarar hafa tekið mér í liðinu og traustið sem ég hef fengið," segir þessi öflugi leikmaður.

„Ég náði að byggja upp ágætis sjálfstraust á Kýpur og tók það með mér heim. Ég hef líka lagt meiri metnað í að fókusa á mikilvæga hluti utan vallar, eins og að hugsa vel um mig og hugsa jákvætt."

Um árangur liðsins segir hún: „Þessi árangur er ekki sjálfsagður og höfum við verið að leggja okkur mikið fram í því sem við höfum verið að gera í sumar, lagt mikla vinnu í að bæta hverja aðra upp sem leikmenn og gera hverja aðra betri. Við náum líka allar vel saman utan vallar sem skiptir máli. Lykill að þessu er því liðsheildin, þar sem markmiðin eru skýr, allir hafa hlutverk, enginn er mikilvægari en annar og við höfum leikmenn sem geta gert gæfumuninn og stigið upp á mikilvægum augnablikum."

Hún segir þetta lið líklega það besta sem hún hefur spilað með á ferlinum. „Já, líklega. Stjarnan 2016 kemur „close second“. Þetta Valslið er góð blanda af ungum og efnilegum leikmönnum við eldri og reyndari leikmenn sem mynda góða tengingu."

Skemmtilegar en um leið krefjandi
Næstu vikur geta verið mjög skemmtilegar fyrir Valskonur þar sem þær eru í möguleika á því að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og vinna Bestu deildina. Þær eru með níu fingur á Íslandsmeistaratitlinum en þær geta tryggt sér hann með einu stigi í síðustu tveimur leikjunum.

„Þessar næstu vikur verða fyrst og fremst skemmtilegar en um leið krefjandi. Okkur langar að komast í riðlakeppnina í Evrópu og viljum við klára leikina sem eftir eru eins vel og unnt er," segir Þórdís en Valur varð bikarmeistari fyrr í sumar.

Leikurinn á morgun er klukkan 17:00 á Origo-vellinum.

Morgundagurinn er stór og er mikilvægt að ná góðum úrslitum á heimavelli. Valsliðið hefur sýnt það í sumar að það er gríðarlega sterkt en ef þær komast úr þessu einvígi sem sigurvegarar þá verða þær annað íslenska félagið til að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Sjá einnig:
Besta tímabil Þórdísar á ferlinum? - „Það er að sýna sig núna"
Athugasemdir
banner
banner
banner