KSÍ tók í dag ákvörðun um að reyna að klára Íslandsmótið í fótbolta.
Hlé hefur verið á mótinu undanfarna daga vegna aukningu kórónuveirusmita á landinu, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Mikil umræða hefur myndast um það hvort eigi að halda áfram keppni, eða hvort eigi að slaufa tímabilinu.
KSÍ tilkynnti í dag að reynt verði að halda áfram að því tilskyldu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, spjallaði við Guðjón Guðmundsson á Stöð 2 Sport um ákvörðunina.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun. Þarna eru alls konar hagsmunir og þetta er margþætt ákvörðun. Það er við ýmislegt að etja t.d. í aðstöðumálum, veðurfari, heilbrigðismálum. Þetta var stór ákvörðun og tók mikið á," sagði Guðni.
„Við erum búin að ræða þetta fram og til baka og það er áberandi enginn góður kostur í stöðunni en við töldum þetta bestu leiðina fram á við. Að fara eftir þeirri reglugerð sem við settum í sumar; að við myndum gefa okkur til 1. desember til að ljúka mótunum ef möguleiki væri á. Við vonumst eftir að þessum takmörkunum verði afleitt á höfuðborgarsvæðinu og við getum hafið leik og við getum klárað mótið."
„Umhverfið er erfitt. Það er erfitt að þurfa að stöðva æfingar og geta ekki spilað svo vikum skiptir. Það setur mikla pressu á okkur. Það eru alls konar mál sem þarf að eiga við, sérstaklega á landsbyggðinni og neðri deildunum þar sem aðstaðan er kannski ekki alveg jafn góð. Við erum meðvituð um það og þess vegna hefur þessi ákvörðun verið mjög erfið."
„Við erum búin að ljúka 80-90 prósent af leikjunum í mótinu og við töldum að við þyrftum að reyna að klára það sem við hófumst handa með snemma í sumar."
Athugasemdir