þri 21. janúar 2020 22:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Tíu Arsenal-menn náðu í stig á Brúnni - Ótrúleg dramatík
Hector Bellerin, fyrirliði Arsenal í kvöld, jafnaði á 87. mínútu.
Hector Bellerin, fyrirliði Arsenal í kvöld, jafnaði á 87. mínútu.
Mynd: Getty Images
David Luiz fékk rautt í fyrri hálfleiknum.
David Luiz fékk rautt í fyrri hálfleiknum.
Mynd: Getty Images
Chelsea 2 - 2 Arsenal
1-0 Jorginho ('28 , víti)
1-1 Gabriel Martinelli ('63 )
2-1 Cesar Azpilicueta ('84 )
2-2 Hector Bellerin ('87 )
Rautt spjald: David Luiz, Arsenal ('26)

Arsenal náði í stig gegn Chelsea á Brúnni. Leikurinn einkenndist af mikilli dramatík, flestir leikir kvöldsins. Arsenal var einum færri frá 26. mínútu eftir að David Luiz fékk að líta rautt spjald á sínum gamla heimavelli.

Chelsea byrjaði mikið betur en Arsenal og heimamenn komust yfir á 28. mínútu eftir gríðarlegan vondan kafla hjá Arsenal. Það byrjaði allt saman á því að Shkodran Mustafi átti slæma sendingu til baka.

Tammy Abraham komst inn í sendinguna og fór fram hjá Bernd Leno, markverði Arsenal. Hann átti bara eftir að setja boltann í netið þegar David Luiz braut á honum. Luiz, fyrrum varnarmaður Chelsea, fékk rautt spjald fyrir vikið og vítaspyrna dæmd.

Jorginho fór á vítapunktinn og skoraði fram hjá Leno. Chelsea komið 1-0 yfir og þannig var staðan í hálfleik.

Útlitið var ekki gott fyrir seinni hálfleikinn hjá Arsenal, manni færri og marki undir. Lærisveinar Mikel Arteta sýndu hins vegar mikinn karakter og mikið hjarta.

Átján ára gamli Brasilíumaðurinn Gabriel Martinelli jafnaði á 63. mínútu er hann brunaði yfir stóran hluta vallarins. Mustafi átti stoðsendinguna. Þetta var fyrsta skot Arsenal í leiknum.

Chelsea setti þunga pressu á Arsenal og tókst að komast aftur yfir á 84. mínútu er Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, skoraði eftir hornspyrnu. Þá héldu einhverjir að Chelsea væri nú að landa sigrinum, manni fleiri.

Þeir sem héldu það, það var rangt hjá þeim. Hector Bellerin, fyrirliði Arsenal í kvöld, vildi ekki vera minni maður en landi sinn, Azpilicueta. Bellerin fékk að leika sér með boltann á vítateigshorninu. Hann fór inn á vinstri fótinn og átti skot sem Kepa Arrizabalaga réði ekki við.

Jöfnunarmarkið má sjá hérna.

Chelsea náði ekki að svara þessu og lokatölur 2-2. Magnaður karaker Arsenal, en Chelsea-menn naga sig væntanlega í handarbökin að hafa ekki klárað þennan leik.

Arsenal er í tíunda sæti með 30 stig, Chelsea í fjórða sæti með 40 stig. Man Utd getur með sigri gegn Burnley á morgun minnkað muninn að Chelsea í þrjú stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner