þri 21. janúar 2020 16:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samúel Kári kostar Paderborn um 69 milljónir króna
Samúel Kári Friðjónsson.
Samúel Kári Friðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Kári Friðjónsson gekk í raðir þýska úrvalsdeildarfélagsins Paderborn síðastliðinn laugardag.

Því eru nú tveir Íslendingar í þýsku úrvalsdeildinni, Samúel Kári og Alfreð Finnbogason sem leikur með Augsburg.

Samúel, sem er 23 ára gamall miðjumaður, er uppalinn í Keflavík en fór árið 2013 til enska félagsins Reading. Hann var í þrjú ár hjá Reading áður en hann hélt til Noregs og gekk til liðs við Vålerenga. Hann lék á síðasta tímabili hjá Vikingi, einnig í Noregi, á láni frá Vålerenga.

Hann skrifaði undir samning til 2022 við Paderborn, sem er nýliði í þýsku úrvalsdeildinni. Paderborn er á botni deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti.

Íslendingavaktin vekur athygli á tíðindum frá Þýskalandi. Á vefút­gáfu þýska dagblaðsins Neue Westfälische er sagt frá því hvað Paderborn greiðir fyrir íslenska landsliðsmanninn, en það er talið vera um 69 milljónir íslenskra króna.

Keflavík mun hagnast á kaupum Paderborn á Samúeli og fá uppeldisbætur fyrir hann. Íslendingavaktin segir að Keflavík hagnist um 3,5 milljónir króna.

Samúel Kári gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Paderborn næstkomandi laugardag gegn Freiburg á útivelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner