Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 21. janúar 2021 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Spænski bikarinn: Barca þurfti framlengingu
Tæpt hjá Athletic Bilbao
Mynd: Getty Images
Tveimur síðustu leikjum 32-liða úrslita spænska Konungsbikarsins var að ljúka.

Barcelona og Athletic Bilbao eru komin áfram í næstu umferð eftir afar nauma sigra gegn neðrideildaliðum Cornella og Ibiza.

Barcelona heimsótti Cornella og lenti í miklum erfiðleikum. Boltinn vildi ekki rata í netið þar sem Miralem Pjanic og Ousmane Dembele klúðruðu vítaspyrnum og var leikurinn því framlengdur.

Dembele skoraði í upphafi framlengingarinnar og gerði Martin Braithwaite út um leikinn á 121. mínútu þegar heimamenn í Cornella voru með alla í sókn í leit sinni að jöfnunarmarki.

Barca þurfti að fara alla leið í framlengingu til að ganga frá Cornella og er það ekki sérlega traustvekjandi merki.

Til gamans má geta að C-deildarlið Cornella sló Atletico Madrid úr leik í síðustu umferð.

Cornella 0 - 2 Barcelona
0-0 Miralem Pjanic, misnotað víti ('39)
0-0 Ousmane Dembele, misnotað víti ('80)
0-1 Ousmane Dembele ('94)
0-2 Martin Braithwaite ('121)

Athletic Bilbao hafði þá betur á partýeyjunni Íbíza þar sem liðið mætti afar sterkum andstæðingum.

Heimamenn í UD Ibiza voru öflugir allan tímann og tóku forystuna snemma leiks. Þeir komust nálægt því að tvöfalda forystuna og leiddu í leikhlé, 1-0.

Raul Garcia jafnaði fyrir Athletic í upphafi síðari hálfleiks og einkenndist leikurinn af mikilli baráttu.

Hvorugu liði tókst að skora fyrr en í uppbótartíma, þegar varnarmaðurinn Unai Nunez kom knettinum í netið og tryggði Athletic áfram í næstu umferð.

Ibiza 1 - 2 Athletic Bilbao
1-0 Mateo Perez ('12)
1-1 Raul Garcia ('52)
1-2 Unai Nunez ('91)
Athugasemdir
banner
banner