Alisson Becker, markvörður Liverpool og brasilíska landsliðsins, verður ekki orðinn leikfær fyrir landsliðsverkefni Brasiilíu í lok mars en þetta staðfesti Dorival Junior, þjálfari landsliðsins, við TNT.
Brasilíumaðurinn var ekki með Liverpool í 4-1 sigrinum á Brentford og staðfesti Jürgen Klopp, stjóri enska félagsins, við fjölmiðla að hann yrði ekki með gegn Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins næstu helgi.
Meiðslin eru líklega töluvert alvarlegri en haldið var í fyrstu.
Dorival Junior, þjálfari Brasilíu, staðfesti við TNT að hann gæti ekki valið Alisson í landsleikina gegn Englendingum og Spánverjum í mars, en þeir eru báðir spilaðir í lok mánaðarins.
Það má því gera ráð fyrir því að Alisson verði ekki orðinn leikfær með Liverpool fyrr en í kringum eða eftir páska.
Þetta eru hræðilegar fréttir fyrir Liverpool sem er sem stendur á toppnum í ensku úrvalsdeildinni. Liðið mætir erkifjendum sínum í Manchester City á Anfield þann 10. mars og mun Klopp þurfa að treysta á írska markvörðinn Caoimhin Kelleher.
Athugasemdir