Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   þri 21. maí 2024 20:22
Brynjar Ingi Erluson
Gagnrýnir Southgate fyrir að velja ekki Rashford - „Áhættunnar virði“
Mynd: EPA
Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, verður ekki með Englandi á Evrópumótinu í sumar, en þessi ákvörðun kemur enska sparkspekingnum Michael Owen verulega á óvart.

Rashford hefur átt afar slakt tímabil með United og á hann ekki lengur fast sæti í byrjunarliði Erik ten Hag.

Á þessu tímabili hefur hann aðeins komið að þrettán mörkum í 42 leikjum, þar af sjö mörk í deild. Það eru sláandi tölur miðað við síðasta tímabil en þá kom hann að 40 mörkum í öllum keppnum.

Southgate ákvað að velja ekki Rashford í úrtakshópinn fyrir Evrópumótið en Owen, sem spilaði fyrir lið á borð við Liverpool, Newcastle United, Manchester United og Real Madrid, skilur ekki þessa ákvörðun.

„Kemur mér mjög á óvart að Gareth Southgate hafi ekki valið Marcus Rashford í hópinn. Vissulega hefur hann átt slakt tímabil miðað við hans gæði, en svona mót eru öðruvísi og hann hefur alltaf verið fullur sjálfstrausts í treyju Englands. Við eigum marga hæfileikaríka sóknarmenn, en mjög fáa með hraða Rashford. Í stórum hópi eins og þessu, var hann áhættunnar virði,“ sagði Owen á X.
Athugasemdir
banner
banner
banner