Thomas Tuchel, fráfarandi þjálfari Bayern München í Þýskalandi, er í baráttunni um stjórastarf Chelsea en hann gæti snúið aftur til félagsins eftir tveggja ára fjarveru.
Mauricio Pochettino var látinn taka poka sinn í kvöld eftir aðeins eitt tímabil með Chelsea.
Enskir miðlar hafa greint frá því að Chelsea sé að skoða það að fá ungan þjálfara til að taka við af Pochettino en þeir Sebastian Hoeness, Michel, Kieran McKenna og Enzo Maresca eru allir orðaðir við stöðuna.
Florian Plettenberg hjá Sky segir að Tuchel komi vel til greina í starfið. Samkvæmt blaðamanninum hefur Tuchel beðið eftir þessum fregnum alla vikuna, en draumur Tuchel er að snúa aftur til Bretlandseyja.
Þjóðverjinn stýrði Chelsea frá 2021 til 2022 og tókst meðal annars að gera liðið að Evrópu- og heimsmeisturum. Tuchel er spenntur fyrir hugmyndinni að snúa aftur á Stamford Bridge en hann lítur á Chelsea sem óklárað verkefni á ferli sínum.
Thomas Frank og Roberto De Zerbi eru einnig á lista Chelsea.
Athugasemdir