Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 21. júlí 2020 13:00
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í stórleik Breiðabliks og Vals
Hvernig fer stórleikurinn á Kópavogsvelli í kvöld?
Hvernig fer stórleikurinn á Kópavogsvelli í kvöld?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablk og Valur mætast í toppslag í Pepsi Max-deild kvenna á Kópavogsvelli klukkan 19:15 í kvöld. Þessi lið fóru bæði taplaus í gengum mótið í fyrra og áttu í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Þau eru einnig taplaus í sumar og búast má við hörkuleik í kvöld. Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin.



Sif Atladóttir, landsliðskona
Breiðablik 1 - 1 Valur
Stórleikur dagsins sem enginn á að láta framhjá sér fara. Ég held að þetta verður opinn og skemmtilegur leikur en liðin munu skipta með sér stigunum. Leikurinn fer 1-1 eftir mark frá Elínu Mettu og Berglindi Björg. Ég er spennt að sjá hvernig Steini og Pétur munu stilla upp varnarlega í þessum leik til þess að máta við ógna sterkar framlínur hvors annars.

Ingvi Þór Sæmundsson, Vísir
Breiðablik 2 - 1 Valur
Ég á ekki von á öðru en dúndurleik. Bæði lið eru fáránlega sterk og ekki tapað deildarleik í tæp tvö ár. Þrátt fyrir jafnteflið við Fylki er Valur með frumkvæðið í titilbaráttunni, út af skekkju í leikjafjölda, og sigur kæmi meisturunum í góða stöðu. En það er eitthvað sem segir mér að Blikar vinni þennan leik með tveimur hafnfirskum mörkum. Karolína Lea Vilhjálmsdóttir getur skorað meira og gerir það í þessum leik. Hlín Eiríksdóttir jafnar fyrir Val en Alexandra Jóhannsdóttir skorar sigurmark Breiðabliks með kollspyrnu, eins og hún virðist skora öll mörkin sín. Blikar vinna 2-1 og senda þar með skilaboð að þær ætli sér að ná aftur í Íslandsmeistaratitilinn.

Mist Rúnarsdóttir, Heimavöllurinn
Breiðablik 2 - 1 Valur
Mig svíður í heilann að hugsa um möguleg úrslit í þessum stórleik. Það getur allt gerst! Liðin gerðu jafntefli í báðum viðureignum sínum í fyrra og það er freistandi að tippa á sömu niðurstöðu í kvöld. Ég ætla hinsvegar að skjóta á 2-1 sigur Blika. Valsliðið sýndi rosalegan karakter, manni færri í rúmar 90 mínútur, í síðasta leik og sannaði að liðið er ekki bara baneitrað sóknarlið heldur kann það að verjast líka. Það virðist svo ekkert hafa hægst á Blikalestinni í sóttkvínni. Þær halda áfram að raða inn mörkum og hafa ekki enn fengið á sig mark. Þetta verður einn með öllu en varnarleikurinn verður þó mjög áberandi ólíkt því sem venjan er hjá þessum frábæru sóknarliðum. The usual suspects, Elín Metta og Berglind Björg, skora sitthvort markið undir lok fyrri hálfleiks og það verður jafnt þangað til á 92. mínútu þegar Heiðdís Lillýardóttir endurtekur leikinn frá því í fyrra og skorar í uppbótartíma.

Davíð Örn Atlason, Víkingur R.
Breiðablik 2-2 Valur
Báðir viðureignirnar enduðu með jafntefli í fyrra og ég held það verði engin breyting þar á í ár. Mínar konur í fantasy sjá um markaskorun: Sveindís Jane og Karólína Lea fyrir Blika og Elín Metta og Hlín fyrir Val.

Halldór Jón Sigurðsson, fyrrum þjálfari Þór/KA
Breiðablik 1 - 0 Valur
Blikar verða að fara yfir þessa hindrun til að verða meistarar og þær klikkuðu heldur betur á því í fyrra. Þær eru með sterkara lið núna en á móti kemur að Valsliðið hefur misst aðeins. Þó eru þær samt sem áður ógnarsterkar og með mikla reynslu. Það verður ekki mikið skorað grunar mig og þessi leikur gæti ráðist á einu marki. Spáði Blikum titlinum svo þær taka þennan leik 1-0 eða 2-1.

Óskar Smári Haraldsson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar
Breiðablik 1 - 1 Valur
Þetta mun verða mjög áhugaverður leikur. Taktísk skák á milli þjálfaranna og verður athygglisvert að sjá nokkrar rimmur á vellinum. Tekst blikavörninni að stoppa besta leikmann deildarinnar, Elínu Mettu? Guðný Árna gegn Berglindi verður líka eitthvað fyrir augað. Það verður hart barist allstaðar á vellinum og ætli við sjáum ekki nokkur gul spjöld fara á loft. Bæði lið munu koma varnfærnislega inn í leikin og hugsa fyrst og fremst um að fá ekki á sig mark. Það verður svolítið einkenni leiksins þar sem við fáum ekki mörg færi. Blikastúlkur munu komast yfir snemma í seinni hálfleik eftir góða skyndisókn þar sem Berglind mun skora eftir sendingu frá Sveindísi. Í lokin munu Valsstúlkur jafna með marki frá Elínu Mettu, einstaklingsframtak af bestu gerð og verður lokaniðurstaða leiksins 1-1. Elías Ingi Árnason mun eiga stórleik á flautunni og fá hæstu einkunn fyrir sinn leik.

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur
Breiðablik 3 - 1 Valur
Í kvöld er stórleikur í íslenskum kvennafótbolta þar sem Breiðablik tekur á móti Val í leik sem allir bíða eftir, jafnt leikmenn sem stuðningsmenn. Þegar þessi frábæru og bestu lið landsins mætast, þá er mjög erfitt að segja til um úrslit. Í ljósi leikja liðanna á síðasta tímabili væri jafntefli líklegasta niðurstaðan. Ef annað liðið mun ná í sigur þá hallast ég fremur að Blikasigri, hungrið hjá þeim er m.a. meira eftir að hafa misst af titilinum í fyrra. Breiðablik hefur að mínu mati komið aðeins betur inn í þetta mót og verið meira sannfærandi en Valur. Þar að auki eru fleiri leikmenn hjá Blikum með einstaklingsgæði til að klára svona leiki og mun það hafa úrslitaáhrif í kvöld. Bæði lið eiga mikið inni og eiga eftir að ná betri takti í sínum leik. Valsliðið hefur að mínu mati ekki náð að fylla skarð Margrétar Láru og sést vel á leik liðsins í dag hversu mikilvæg hún var í að landa titilinum í fyrra.

Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur og engin ástæða til að ætla annað en áhorfendamet verði slegið í Kópavoginum. Það má búast við taktískri stöðubaráttu og háu spennustigi í byrjun leiks á meðan liðin þreifa hvort á öðru. Blikar fá á sig sitt fyrsta mark í sumar og lenda 0 – 1 undir með marki frá besta leikmanni Vals og þeirra helsta markaskorara, Elínu Mettu. Þær grænklæddu sigla síðan heim 3 - 1 sigri þar sem Sveindís Jane verður í aðalhlutverki, skorar eitt og leggur upp annað. Berglind Björg og Alexandra halda svo uppteknum hætti og skora báðar.

Hulda Mýrdal, Heimavöllurinn
Breiðablik 0 - 1 Valur
Stórleikurinn með greini í kvöld þegar Breiðablik fær Val í heimsókn. Þó svo Valsliðið sakni eflaust Fanndísar og Elísu í þessu leik þá væru Blikar eflaust líka til í að hafa Hildi Antons. Þrátt fyrir þetta þá eru bara svo margir góðir leikmenn þarna að liðin verða þrátt fyrir þetta ógnarsterk.
Það er alltaf jafn mikill hausverkur að spá fyrir um úrslit þegar þessi stórlið mætast. Við erum með tvær sem hafa líklega aldrei verið betri, þær Elínu Mettu og Hlín. Maður veit bara ekki hvar það endar. Þær eru hinsvegar ekki einu sem eru í stuði því Berglind Björg er drottningin í Kópavoginum, Sveindís var ekki lengi að aðlaga sig að stórliði og hefur smollið eins og flís við rass í Smáranum og Alexandra er orðinn bara drullugóður leikmaður, afsakið orðbragðið.

Ég held samt að bæði lið muni byrja varlega og gefa fá færi á sér. Valur þarf hinsvegar þrjú stig í þessum leik eftir að hafa tapað tveimur stigur í titilbaráttunni með jafnteflinu við Fylki í síðustu umferð. Nú hef ég breytt um skoðun svona 28 sinnum meðan ég er að hugsa hvernig þetta fer. Jæja áfram gakk. Valsliðið mætir trítilótt í leikinn því þær verða að vinna og skora 1 mark. Elín Metta gerir það með því að líma boltann við takkaskóna sína og lúðra honum í skeytin. Þá öskrar Berglind Björg sitt lið í gang og Agla María jafnar leikinn eftir svakalegan sprett. Þegar komið er fram yfir venjulegan leiktíma gerir Valsliðið allt til að setja sigurmark og vörnin þeirra opnast, Blikar nýta sér það með vel útfærðri skyndisókn sem var teiknuð upp af Steina á síðustu æfingu. Sveindís skorar á síðustu sekúndu leiksins og allt verður vitlaust í Kópavoginu. Ég held að það sé að líða yfir mig úr spenning að bíða eftir þessum leik þannig að ég vona að allir fjölmenni á Kópavogsvöll í kvöld!

Sjá einnig:
Jói rýnir í toppslaginn: Má búast við skemmtilegri skák
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner