KR vildi fá að fresta leik sínum við Breiðablik í Pepsi Max-deildinni í kvöld, en fékk neitun frá KSÍ.
KR mátti aðeins tefla fram leikmönnum sem ferðuðust til Tallinn til að spila gegn Floru í forkeppni Evrópudeildarinnar á dögunum. Leikmennirnir eru í svokallaðri vinnusóttkví.
„Við leituðum til KSÍ að fresta þessum leik því við máttum ekki taka leikmenn inn í hópinn. Okkur þótti skrítið að fá nei við því," sagði Rúnar í viðtali við Fótbolta.net í kvöld.
Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR, var á skýrslu sem leikmaður. Bjarni, sem er 41 árs, lagði skóna á hilluna árið 2013 eftir afar farsælan feril bæði hérlendis og erlendis. Hann lék með bæði ÍA og KR hér heima og safnaði að sér ófáum titlum.
Rúnar vildi setja Bjarna inn á í dag með syni hans, Jóhannesi Kristni, sem er aðeins 15 ára. Jóhannes Kristinn kom inn í uppbótartíma, en Bjarni kaus að fara ekki inn á.
„Við hefðum viljað setja Bjarna inn á með Jóa syni hans en hann vildi það ekki sjálfur," sagði Rúnar.
„Við fengum neitun (frá KSÍ) en við undirbjuggum okkur rosalega vel fyrir þennan leik þrátt fyrir að við værum að bíða svara frá knattspyrnusambandinu. Við sættum okkur bara við það. Við hefðum samt kannski vonast til að fá svar fyrr en tæpum sólarhring fyrir leik."
Athugasemdir