Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands tjáði sig í kvöld í fyrsta sinn um mál Albert Guðmundssonar síðan Guðmundur Benediktsson faðir hans og Albert Brynjar Ingason móðurbróðir hans sendu frá sér yfirlýsingar um málið fyrir helgi.
Albert er ekki í leikmannahópnum sem mætir Bosníu/Herzegóvínu og Liechtenstein í vikunni en Arnar hafði sagt í viðtölum að hann vildi ekki koma því hann yrði ekki í byrjunarliðinu. Guðmundur og Albert Brynjar segja það rangt.
Elvar Geir Magnússon ritstjóri Fótbolta.net er í Zenica og spurði Arnar Þór út í málið á fréttamannafundi í dag.
„Mín viðbrögð eru bara mjög lítil. Ég hef ekki neinn tíma til að berjast í svona hlutum," svaraði Arnar Þór.
„Það er nóg að gera, og við ætlum að einbeita okkur að leiknum á morgun. Það vilja allir, og þurfa allir að hafa sína skoðanir og ég virði það bara," bætti hann við.
„Ég vil bara sjá um það sem ég get gert, og stjórna því sem ég vil stjórna, og vinn mína vinnu. Það er nóg að gera að undirbúa leikinn á morgun að öllu leiti. Það er það eina sem ég get sagt um það gamla mál," sagði hann að lokum.
Sjá einnig:
- Albert Brynjar fyllir í eyðurnar: Tekinn fyrir á fundi fyrir framan liðið
- Gummi Ben: Endalausar árásir að heiðri og persónu Alberts mun ég ekki líða lengur
- Arnar segir Albert ekki hafa viljað vera á bekknum