þri 22. júní 2021 22:08
Brynjar Ingi Erluson
Yfirlýsing Breiðabliks: Ekki ástæða til að sjúkrabíll kæmi í forgangsakstri
Jason Daði Svanþórsson í leiknum gegn FH
Jason Daði Svanþórsson í leiknum gegn FH
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviksins sem átti sér stað í 4-0 sigri liðsins á FH í Pepsi Max-deild karla á dögunum en Jason Daði Svanþórsson féll til jarðar.

Jason Daði var í byrjunarliði Blika í leiknum. Hann skoraði annað mark liðsins á 23. mínútu en sjö mínútum síðar fann hann verk í brjóstkassanum og féll til jarðar.

Hann var settur í hliðarlegu og var kallað eftir lækni á Kópavogsvelli og voru næstu skref ákveðin í framhaldinu. Breiðablik segir að aðbúnaðurinn hafi verið til fyrirmyndar og að það hafi verið metið sem svo að ekki var þörf á að kalla eftir sjúkrabíl í forgangsakstri.

Jason var með meðvitund og fékk aðstoð frá sjúkraþjálfurum beggja liða auk tveggja heilbrigðismanna úr stúkunni. Hægt er að sjá yfirlýsingu Breiðabliks í heild sinni hér fyrir neðan.

Leikmaðurinn er á batavegi og fékk hann að fara heim af sjúkrahúsi síðar um kvöldið.

Yfirlýsing knattspyrnudeildar Breiðabliks

„Vegna umræðu um atvik í leik meistaraflokks karla á Kópavogsvelli þann 20. júní síðastliðinn, vill Breiðablik koma eftirfarandi á framfæri.

Á leikjum hjá meistaraflokkum Breiðabliks er sjúkraþjálfari á bekknum en auk þess er nauðsynlegur skyndihjálparbúnaður einnig til staðar, þar með talið hjartastuðtæki.

Þegar leikmaður Breiðabliks lagðist niður í leik þann 20. júní, var gengið til verks í samræmi við reglur. Á vettvang komu til stuðnings sjúkraþjálfara Breiðabliks, sjúkraþjálfari gestaliðs auk tveggja heilbrigðisstarfsmanna úr stúkunni. Í samráði við til þess bæra aðila var það metið svo að ekki væri ástæða til að sjúkrabíll kæmi í forgangsakstri og því kom hann eftir 11 mínútur, ef þörf hefði verið hefði hann án vafa komið fyrr.

Einhverjum kann að hafa brugðið við að sjá hjartastuðtæki vera komið inn á völlinn en er það samkvæmt verklagsreglum félagsins, öryggisins vegna. Leikmaðurinn missti aldrei meðvitund.
Knattspyrnudeild Breiðabliks kappkostar að hafa alla framkvæmd leikja, öryggismál og umgjörð eins og best er á kosið og í fullu samræmi við allar reglur þar um sem settar eru af KSÍ og UEFA. Um leiki í deildakeppni á Íslandi og leiki í Evrópukeppni gilda ekki sömu reglur um umgjörð, öryggisgæslu og fleira.

Knattspyrnudeildin fer reglulega yfir skipulag í þessum málum á heimaleikjum Breiðabliks með sérfræðingum og uppfærir verklag sé þess þörf. Það er alltaf hægt að gera enn betur.
Knattspyrnudeild Breiðabliks

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner