Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segist vera 100% viss um að félagið hafi fylgt réttu verklagi varðandi Thomas Partey. Arsenal hefur fengið mikla gagnrýni fyrir að láta Partey spila fyrir félagið þó verið væri að rannsaka alvarlegar ásakanir á hans hendur.
Partey, fyrrverandi miðjumaður Arsenal, hefur verið ákærður fyrir fimm nauðganir og eitt tilfelli kynferðisofbeldis gagnvart þremur konum.
Atvikin eiga að hafa átt sér stað árin 2021 og 2022. Partey neitar sök og hefur unnið með lögreglu meðan á rannsókn hefur staðið.
Hann var fyrst handtekinn í júlí 2022 en strangar reglur eru um nafnbirtingu á Bretlandi og fjölmiðlar máttu ekki opinbera nafn hans. Hann hélt áfram að spila fyrir Arsenal en yfirgaf félagið í sumar.
„Það eru mörg flókin lagaleg mál sem ég get ekki tjáð mig um. Ég er 100% viss um að Arsenal hafi fylgt réttu verklagi í þessu máli," sagði Arteta þegar hann var spurður á fréttamannafundi en margir stuðningsmenn hafa sett spurningamerki við það hvernig félagið höndlaði málið
Partey mun mæta fyrir dóm í Lundúnum 5. ágúst. Lögmaður hans lýsti því yfir að hann neiti sök og vilji fá tækifæri til að hreinsa nafn sitt.
Athugasemdir