Federico Chiesa er líklega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Liverpool eftir misheppnaða eins árs dvöl hjá félaginu.
Liverpool leggur af stað í æfingaferð til Asíu á morgun og er Chiesa ekki með í ferðalaginu. Hann er að leita sér að nýju félagi þar sem krafta hans er ekki lengur óskað í Liverpool.
Chiesa fékk tækifæri á síðustu leiktíð til að sanna sig en nýtti það illa. Hann var mikið meiddur og átti í vandræðum með að koma sér í nægilega gott stand til að vera valinn af Arne Slot þjálfara.
Ítalinn kom í heildina að 4 mörkum í 14 leikjum með Liverpool, þar sem hann spilaði í tæplega 500 mínútur og kom því að marki á innan við 90 mínútna fresti. Honum tókst ekki að hrífa þjálfarateymið og var markaframlag hans nokkuð tilgangslaust þar sem honum tókst aðeins að hafa áhrif á úrslitin í stórsigrum eða tapleikjum.
Chiesa er ennþá með þrjú ár eftir af samningi sínum við Liverpool. Markmið hans er að vinna sér aftur inn sæti í ítalska landsliðshópnum og til þess þarf hann að fá meiri spiltíma heldur en er í boði hjá Englandsmeisturunum.
Chiesa er 27 ára gamall og eru mörg félög á Ítalíu sem hafa áhuga á honum. Hann er þó þekktur fyrir að vera mikill meiðslapési og gæti það haft áhrif á framtíðarhorfur hans.
Hæfileikar Chiesa eru óumtvíræddir þar sem þessi kröftugi og beinskeytti kantmaður er með 57 A-landsleiki að baki fyrir Ítalíu eftir að hafa leikið með Fiorentina og Juventus allan ferilinn.
Chiesa var mikilvægur hlekkur í byrjunarliði ítalska landsliðsins sem vann EM fyrir fjórum árum en hann hefur ekki verið valinn í landsliðshópinn það sem af er árs.
Giorgi Mamardashvili, Florian Wirtz og Jeremie Frimpong eru allir í 29-manna leikmannahópi sem fer til Asíu.
Hópurinn: Alisson, Gomez, Endo, Van Dijk, Konate, Diaz, Szoboszlai, Nunez, Mac Allister, Salah, Jones, Gakpo, Elliott, Tsimikas, Robertson, Gravenberch, Doak, Woodman, Mamardashvili, Kerkez, Wirtz, Frimpong, Pecsi, Ngumoha, Misciur, Morton, Bradley, Stephenson, Nyoni
Athugasemdir