Þýskalandsmeistarar FC Bayern ætla að kaupa nýjan kantmann í sumar og eins og hefur áður verið greint frá er kólumbíski landsliðsmaðurinn Luis Díaz efstur á óskalistanum.
Það gæti þó reynst erfitt fyrir Bayern að semja við Liverpool um kaupverð, enda er Díaz mikilvægur hlekkur í byrjunarliði Englandsmeistaranna.
Ef Bayern tekst ekki að kaupa Díaz hefur félagið þegar sett sig í samband við umboðsteymi annarra leikmanna. Einn þeirra er Leandro Trossard hjá Arsenal eins og hefur verið greint frá, en félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir annan kantmann vera ofar á óskalistanum.
Sá heitir Malick Fofana og er tvítugur kantmaður Lyon og belgíska landsliðsins.
Fofana kom að 17 mörkum í 41 leik með Lyon á síðustu leiktíð, en hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik með Belgíu í fyrra. Hann er lykilmaður í U21 landsliðinu eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur upp öll yngri landsliðin.
Athugasemdir