Juventus að landa Sancho - Barcelona greiðir laun Rashford - Wharton til Liverpool?
   sun 20. júlí 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Howe vongóður þó öll skotmörkin fari annað
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Eddie Howe þjálfari Newcastle svaraði spurningum eftir stórt tap í æfingaleik gegn Celtic í gær.

Celtic er komið lengra á undirbúningstímabilinu heldur en Newcastle, sem vantaði marga lykilmenn. Celtic gjörsamlega yfirspilaði Newcastle og skóp auðveldan 4-0 sigur.

Newcastle hefur einungis tekist að kaupa inn einn nýjan leikmann í sumar, kantmanninn Anthony Elanga. Auk hans er spænski kantmaðurinn Antonio Cordero kominn á frjálsri sölu. Á sama tíma eru Callum Wilson, Jamal Lewis og Sean Longstaff farnir, auk Lloyd Kelly sem lék á láni hjá Juventus á síðustu leiktíð.

Newcastle reyndi að kaupa Hugo Ekitike í sumar en Eintracht Frankfurt hafnaði mettilboði frá enska félaginu. Liverpool er núna að ganga frá kaupum á Ekitike fyrir um 95 milljónir evra.

Newcastle reyndi einnig að kaupa Joao Pedro frá Brighton í sumar en hann valdi Chelsea og núna er félagið að einbeita sér að Yoane Wissa, kantmanni Brentford. Þau félagaskipti eru þó orðin flóknari eftir að Brentford samþykkti að selja Bryan Mbeumo til Man Utd og vill núna fá meiri pening til að missa líka Wissa frá sér.

„Ég vildi að ég gæti gefið skýrari svör, en ég get það ekki. Óskin mín var að við myndum ljúka okkar viðskiptum snemma í sumar en það hefur ekki gengið upp. Við reyndum að gera það, en það gekk bara ekki upp," sagði Howe.

„Ég viðurkenni að við höfum misst af nokkrum skotmörkum á fyrri hluta sumars. Ef leikmenn eru ekki ólmir í að koma að spila fyrir Newcastle þá ganga félagaskiptin ekki upp. Við erum samt fullir sjálfstrausts um að við munum ná að kaupa mikilvæga menn til félagsins í glugganum. Við erum að leita að gæðamiklum leikmönnum sem þrá að spila fyrir Newcastle."
Athugasemdir
banner