City hefur sett verðmiða á McAtee - Real til í að bíða eftir Konate og hefur áhuga á Saliba
   sun 20. júlí 2025 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Þrír að lenda í Róm - Ghilardi verður sá fjórði
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það eru þrír nýir leikmenn að lenda í Róm á næstu dögum og verður Daniele Ghilardi að öllum líkindum sá fjórði eftir að hann hafnaði félögum í spænska boltanum til að semja við Roma.

Ghilardi er 22 ára miðvörður sem gerði frábæra hluti með Verona á síðustu leiktíð og vann sér inn byrjunarliðssæti. Hann er lykilmaður í sterku U21 landsliði Ítalíu og hefur í heildina spilað 43 leiki fyrir yngri landsliðin.

Verona vill 10 milljónir fyrir Ghilardi en Real Betis er búið að bjóða 4 milljónir fyrir hann. Núna bíður leikmaðurinn eftir að Roma nái samkomulagi við Betis um kaupverð.

Roma er að landa Wesley Franca úr röðum Flamengo fyrir rúmar 25 milljónir evra. Wesley er 21 árs hægri bakvörður með tvo spilaða A-landsleiki fyrir Brasilíu á árinu.

Hann er mikilvægur hlekkur í liði Flamengo og hafnaði Zenit í Rússlandi til að skrifa undir hjá Roma. Wesley verður seldur til Roma þegar Flamengo verður búið að ganga frá kaupum á nýjum hægri bakverði til að fylla í skarðið.

Auk Wesley er Evan Ferguson á leiðinni á lánssamningi frá Brighton. 40 milljón evru kaupmöguleiki fylgir framherjanum efnilega.

Þá er marokkóski miðjumaðurinn Neil El Aynaoui einnig að ganga til liðs við félagið. Roma borgar 25 milljónir til að kaupa hann úr röðum Lens í Frakklandi.

Roma er að lokum í viðræðum við Brighton um félagaskipti fyrir miðjumanninn Matt O'Riley, sem gæti orðið fimmti leikmaðurinn til að ganga í raðir félagsins í sumar.

Roma hefur hingað til ekki staðfest nein kaup í sumar en félagið er búið að selja Enzo Le Fée, Samuel Dahl og Nicola Zalewski fyrir rúmlega 30 milljónir. Þar að auki hafa Eldor Shomurodov og Tammy Abraham verið lánaðir í tyrkneska boltann á meðan Leandro Paredes fór frítt til Boca Juniors í Argentínu.
Athugasemdir
banner