Valsmenn tryggðu sér toppsætið í Bestu-deildinni með sigri á Víking R. í kvöld. Leikar enduðu 1-2, en sigurmark Vals kom undir lok leiks. Jónatan Ingi Jónsson, leikmaður Vals mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Valur
„Þetta eru alltaf hörkuleikir, alltaf dramatík og það var aftur í dag. Loksins vorum við réttum megin, þetta er búið að detta svolítið í jafntefli eða með þeim síðustu ár. Þetta var auðvitað geggjað þegar þetta datt fyrir Patta hér undir lokin, hann var ekki að fara klúðra þessu."
Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga var rekinn af velli eftir að hafa brotið harkalega á Jónatani.
„Ég sé nóg pláss, Tryggvi kemur með geggjaðan bolta. Ég hélt ég væri að fara fá færi og var svolítið hissa þegar ég sá Ingvar koma út. En ég vissi að ég þurfti að snerta boltann, því ef hann snertir boltann og ég bakka út þá er þetta ekki brot."
„Þannig að ég tók eitt fyrir liðið og svo keyrir hann inn í mig. Hann er örugglega nokkrum kílóum þyngri en ég. Ég er ekki voðalega þungur þannig að það var ekki þægilegt, en þess virði."
Athugasemdir