
Glódís Perla Viggósdóttir átti líkt og aðrir leikmenn Íslands skínandi leik í 4-0 sigri Íslands á Tékklandi á Laugardalsvelli í kvöld. Gestunum gekk lítið að komast fram hjá Glódísi og stöllu hennar í vörninni Guðrúnu Arnardóttur en þær voru að leika saman í varnarlínunni í fyrsta sinn í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 4 - 0 Tékkland
Talsvert rót hefur verið á hver hefur leikið við hlið Glódísar á undanförnum árum og var hún spurð á blaðamannafundi eftir leik kvöldsins hvort þetta væri alltaf jafn auðvelt að spila sig saman með nýjum aðila?
„Þetta eru náttúrulega öðruvísi leikmenn og ekki sama leikmannatýpan. En þótt ég hafi kannski ekki spilað með þeim hvern einasta leik þá hef ég líka æft með þeim lengi og þekki þær vel allar sem leikmenn og þekki þeirra styrkleika.“
„Svo snýst þetta bara um að tala saman inn á vellinum og hjálpa hvor annarri og mér finnst þær allar - sama með hverri ég spila - vega mig upp og ég reyni að vega þær upp og þannig er þetta að virka best.“
„Það er auðvitað ákveðin tryggð í að spila alltaf með sama en eins og ég segi við æfum allar saman og ég þekki þær ótrúlega vel og það skiptir engu máli hver væri að spila þessar tvær stöður hjá okkur. Þær myndu allar finna út úr því og finna góða lausn á því.“
Sagði Glódís en hún verður aftur í eldlínunni með landsliðinu næstkomandi þriðjudag þegar liðið mætir Kýpur á Laugardalsvelli.
Athugasemdir