Jean-Philippe Mateta kom inn af bekknum og bjargaði stigi fyrir Crystal Palace sem heimsótti Arsenal í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Mateta skoraði glæsilegt mark þar sem hann vann boltann hátt uppi á vellinum áður en hann lyfti honum skemmtilega yfir David Raya sem var kominn af marklínunni.
Mateta byrjaði leikinn á bekknum en átti frábæra innkomu á 80. mínútu. Hann verður væntanlega í byrjunarliðinu þegar Palace mætir Aston Villa á Wembley um helgina, í undanúrslitaleik FA bikarsins.
„Ég byrjaði á bekknum og tók eftir því hversu langt markvörðurinn þeirra var alltaf frá marklínunni. Ég vissi að ef ég myndi vinna boltann hátt uppi á vellinum þá yrði ég að reyna að skora og það gekk upp. Þetta er eitt af bestu mörkum sem ég hef skorað á ferlinum. Ég var smeykur um að þetta færi í slána en sem betur fer endaði boltinn í netinu," sagði Mateta kátur að leikslokum.
„Þetta var góður leikur fyrir okkur og við getum mætt inn í undanúrslitaleikinn fullir sjálfstrausts. Vonandi komumst við í úrslitaleikinn, þetta verður mjög mikilvægur leikur fyrir félagið og stuðningsmenn. Ég get ekki beðið eftir að spila á laugardaginn."
Oliver Glasner þjálfari var einnig himinlifandi að leikslokum.
„Strákarnir spiluðu frábæran leik í dag, ég er stoltur af þeim. Við skoruðum glæsileg mörk og sköpuðum mikið af færum. Ég horfði á mikið af leikjum hjá Arsenal á tímabilinu og ég man ekki eftir neinu liði sem skapaði jafn mikið af góðum færum gegn þeim og við gerðum í kvöld. Þetta var mikilvæg frammistaða fyrir undanúrslitaleikinn á laugardaginn."
Athugasemdir