Giorgio Chiellini opnaði sig í viðtali við DAZN og sagði frá því þegar Leonardo Bonucci yfirgaf Juventus til að ganga í raðir AC Milan sumarið 2017.
Félagaskiptin komu gífurlega á óvart og var miðvörðurinn keyptur aftur til Juventus ári síðar.
„Þegar hann sagðist vera að yfirgefa Juve varð ég mjög sár. Ég greindi honum skýrt frá því hvernig mér leið með löngum skilaboðum kvöldið eftir að hann sagðist ætla að skipta um félag," sagði Chiellini.
„Hann hefði ekki skipt yfir til Milan ef hann hefði farið í sumarfrí með mér eins og svo oft áður. Hann kom úr fríinu og sagði mér frá þessari ákvörðun sinni."
Milan eyddi rúmlega 180 milljónum evra í nýja leikmenn yfir sumarið, þar með taldar 42 milljónir sem fóru í Bonucci og 40 í portúgalska sóknarmanninn Andre Silva.
Andrea Conti, Hakan Calhanoglu, Lucas Biglia, Mateo Musacchio og Ricardo Rodriguez voru einnig keyptir þetta sumarið og kostuðu í heildina 104 milljónir evra auk Matteo Pessina. Hinn efnilegi Pessina fór í skiptum fyrir Conti og 24 milljónir, en í dag er Pessina landsliðsmaður Ítalíu og mikilvægur hlekkur í liði Atalanta.
„Hefðum við farið saman í fríið þá hefði ég getað opnað augun hans og látið hann sjá að þetta voru mistök. Með fullri virðingu þá var þetta Milan lið ekki beint í sama flokki og Real Madrid og hann áttaði sig á því sjálfur skömmu eftir félagaskiptin.
„En svona gerðist þetta. Ég get ekki tekið ákvarðanir fyrir Leo... ég fæ ekki einu sinni að taka ákvarðanir á mínu eigin heimili."
Athugasemdir