Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   sun 25. ágúst 2019 18:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Midtjylland berst við FCK - Malmö tapaði í toppslag og Aron skoraði
Mikael Neville Anderson.
Mikael Neville Anderson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Sigurðarson.
Aron Sigurðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Í dönsku úrvalsdeildinni voru tveir Íslendingaslagir í dag. Mikael Neville Anderson og liðsfélagar hans í Midtjylland eru að berjast á toppi deildarinnar.

Mikael kom inn á sem varamaður á 68. mínútu þegar Midtjylland vann 2-0 sigur gegn SönderjyskE. Eggert Gunnþór Jónsson var í byrjunarliði SönderjyskE, en fór út af á 57. mínútu.

Midtjylland er á toppi deildarinnar með 19 stig, einu stigi meira en FC Kaupmannahöfn sem er að spila við Nordsjælland. SönderjyskE er í sjötta sæti deildarinnar með níu stig.

Bröndby er í þriðja sætinu með 13 stig, sex stigum minna en Midtjylland. Bröndby tapaði óvænt 3-0 gegn AGF í dag. Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Bröndby og lék allan leikinn. Jón Dagur Þorsteinsson var allan tímann á bekknum hjá AGF.

Sjá einnig:
Danmörk: Kjartan Henry skoraði tvö í sigri Vejle - Ingvar hélt hreinu

Slæmt tap hjá Malmö í toppslag
Í sænsku úrvalsdeildinni var toppslagur þegar Malmö og Djurgården mættust á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Arnór Ingvi Traustason lék 55 mínútur hjá Malmö.

Leikurinn endaði með 1-0 sigri Djurgården og kom sigurmarkið eftir klukkutíma leik. Stuttu síðar klúðraði Markus Rosenborg vítaspyrnu fyrir Malmö.

Þetta er afar súrt tap fyrir Malmö sem er núna sex stigum frá Djurgården í staðinn fyrir að vera með jafnmörg stig, en þannig hefði staðan verið ef Malmö hefði unnið leikinn.

Sjá einnig:
Svíþjóð: Gummi Tóta lagði upp tvö í stórsigri
Svíþjóð: Kristianstad sigraði í Íslendingaslag

Aron skoraði í sigri Start
Það var leikið í tveimur efstu deildum Noregs í dag. Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn hjá Viking í 2-2 jafntefli gegn Ranheim á heimavelli.

Viking komst í 2-0 en kastaði frá sér forystunni á síðustu 10 mínútum leiksins. Afar svekkjandi tapi hjá Viking sem er í áttunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Lilleström er í níunda sæti deildarinnar. Lilleström vann góðan 2-0 útisigur gegn Haugesund og spilaði Arnór Smárason þar 83 mínútur í búningi Lilleström.

Aron Sigurðarson skoraði fyrir Start af vítapunktinum í B-deildinni. Lærisveinar Jóhannesar Þórs Harðarsonar unnu Raufoss 2-1. Aron jafnaði úr vítaspyrnu og kom sigurmarkið á 78. mínútu. Start er í öðru sæti, en tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeild.

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn fyrir Sandefjord í 1-1 jafntefli gegn Nest-Sotra. Emil Pálsson var allan tímann á bekknum, en hann hefur verið að glíma við erfið meiðsli.

Sandefjord er í þriðja sæti B-deildarinnar, með jafnmörg stig og Start eða 42 talsins.

Álasund, annað Íslendingalið, er á toppnum með 50 stig og leik til góða á Start og Sandefjord.

Ragnar fyrirliði í sigri á Rubin
Að lokum til Rússlands þar sem Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörðurinn, var með fyrirliðabandið hjá Rostov í sigri gegn Rubin Kazan.

Viðar Örn Kjartansson spilaði ekki leikinn fyrir Rubin þar sem hann er í láni frá Rostov.

Rubin náði forystunni eftir korter, en Rostov jafnaði eftir tæpan hálftíma. Sigurmarkið kom á 87. mínútu leiksins. Lokatölur 2-1 fyrir Rostov sem er í fimmta sæti með 14 stig eftir sjö leiki. Rubin er í níunda sæti með 10 stig.

Sjá einnig:
Rússland: CSKA vann - Viðar Örn má ekki spila á eftir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner