sun 26. mars 2023 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Arsenal ætlar að selja Rúnar Alex í sumar
Mynd: Arsenal

Enskir fjölmiðlar eru sammála um að Arsenal ætli að gera sitt allra besta til að selja Rúnar Alex Rúnarsson í sumar.


Rúnar Alex er 28 ára gamall og mun aðeins eiga eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal í sumar.

Rúnar hefur verið að gera fína hluti á láni hjá Alanyaspor í tyrknesku deildinni á tímabilinu en hann er ekki talinn eiga afturkvæmt í leikmannahóp Arsenal, þar sem Aaron Ramsdale og Matt Turner eru ofar í goggunarröðinni.

Rúnar var keyptur til Arsenal fyrir þremur árum síðan til að fylla í skarð Emiliano Martinez, sem var valinn besti markvörður heims á dögunum. Þau áform gengu ekki eftir og verður áhugavert að fylgjast með næsta skrefi hans á ferlinum. Ljóst er að Rúnar hefur alla burði til að vera byrjunarliðsmarkvörður í sterkri deild eftir frammistöðu hans í Tyrklandi.

Rúnar lék í heildina sex leiki á milli stanga Arsenal og hélt hreinu í þremur þeirra en fékk sjö mörk á síg í hinum þremur. Hann fékk lítið af tækifærum með aðalliðinu eftir þessa sex leiki og þótti ekki nægilega öruggur til að vera varamarkvörður félagsins. Hann var í kjölfarið lánaður út til OH Leuven á síðustu leiktíð.

Rúnar er einn af sjö leikmönnum sem Arsenal ætlar að reyna að losa sig við í sumarhreingerningunni.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner