Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 26. september 2020 10:00
Fótbolti.net
„Bjóða betri samninga og hafa safnað saman yfirburðarliði"
Davíð Smári, þjálfari Kórdrengja.
Davíð Smári, þjálfari Kórdrengja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári, þjálfari Kórdrengja, fór í viðtal í vikunni sem hefur vakið mikið umtal. Þar segir hann að Kórdrengir, sem eru á toppi 2. deildarinnar, hafi ekki fengið það lof sem þeir eiga skilið.

„Mér finnst við eiga meira skilið, bæði í umfjöllun og bara í öllu saman. Þetta er eitthvað stærsta ævintýri sem hefur gerst í Íslenskri knattspyrnu," sagði Davíð.

Rætt var um viðtalið í hlaðvarpsþættinum Ástríðan sem kom inn núna í morgun og gátu menn ekki alveg tekið undir orð Davíðs.

„Þeir hafa safnað saman það miklu yfirburðarliði af reynslumiklum og góðum leikmönnum í bland við sterka stráka sem hafa staðið sig vel í neðri deildunum undanfarin ár. Þeir bjóða samninga sem eru betri en leikmenn fá annars staðar, það er bara staðreynd. Ég er ekkert að segja að allir séu á 'monster dílum' en þeir eru á betri samningum en þeir myndu fá á öðrum stöðum," segir Sverrir Mar Smárason.

„Þeir eru með svo marga leikmenn sem eru búnir að sanna sig að það er lítið annað hægt en að gera kröfu um að liðið fari upp um deild. Samt sem áður er það frábært hjá þeim að fara upp um þrjár deildir á þremur árum. Mér finnst við hafa talað mjög fallega um þá."

Óskar Smári Haraldsson tekur undir að það hefði verið skandall ef þessi leikmannahópur Kórdrengja hefði ekki farið upp.

„Við berum mikla virðingu fyrir því sem þeir gera en ég upplifi það þannig að Davíð vilji meira kredit fyrir þetta afrek að fara upp um þrjár deildir á þremur árum. Þetta er alveg ævintýri en ef við horfum á hvernig Magni bjargaði sér og Huginn fór upp, það eru alvöru ævintýri," segir Óskar.

Hér að neðan má sjá viðtalið umtalaða og einnig er hægt að hlusta á nýjasta þátt Ástríðunnar.
Davíð Smári: Erum ekki að fá nógu mikið lof
Ástríðan - Umdeilt bann og umtalað viðtal
Athugasemdir
banner
banner