þri 26. október 2021 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Glódís fimm leikjum frá risastórum áfanga
Icelandair
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir hefur verið gríðarlega mikilvægur hluti af íslenska landsliðinu undanfarin níu ár.

Hún byrjaði að spila með A-landsliðinu árið 2012, þegar hún var á 17. aldursári.

Þessi frábæri varnarmaður lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Skotlandi - í 1-1 jafntefli - í ágúst 2012. Hún lék þá við hlið Sifjar Atladóttur í vörn Íslands.

Þær eru báðar enn í landsliðshópnum og hafa verið stórkostlegar fyrir liðið síðustu árin.

Glódís, sem er aðeins 26 ára, mun ná risastórum áfanga væntanlega snemma á næsta ári því hún er núna fimm leikjum frá því að spila sinn 100. landsleik.

Glódís hefur varla misst úr landsleik frá því hún lék sinn fyrsta A-landsleik og spurning hvort hún muni ná 200 landsleikjum. Það er vel raunhæft ef hún nær að halda sig fjarri meiðslum.

Þess má geta að Sara Björk Gunnarsdóttir er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 136 landsleiki. Sara er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni þar sem hún er ólétt. Leikjahæsta landsliðskonan í hópnum í dag er Hallbera Guðný Gísladóttir með 121 landsleik.

Ísland spilar við Kýpur í undankeppni HM í dag og þar gæti Glódís spilað sinn 96. landsleik ef hún kemur við sögu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner