Portúgalski stjórinn Ruben Amorim gefur ekki mikið fyrir ummæli Arne Slot um spilamennsku Manchester United gegn Liverpool og segist vera fullfær um að vega og meta frammistöðu liðsins.
Amorim talaði við fjölmiðla fyrir helgina þar sem hann svaraði ummælum Slot sem talaði um lágvörn og langa bolta United í leik liðanna um síðustu helgi.
Man Utd vann þar sinn fyrsta deildarleik á Anfield síðan 2016, en það var Harry Maguire sem gerði sigurmarkið með skalla á lokakafla leiksins.
Portúgalska stjóranum sagðist vera drullu sama um það sem Slot hafði að segja um leikstíl liðsins.
„Mér er sama um það sem Slot er að segja eða hvað fólk er að segja um liðið okkar.“
„Ég get horft á leikinn og sagt að við getum og þurfum að gera betur í framtíðinni, en stundum þarftu að aðlagast leiknum.“
„Ég þarf engan til vega og meta liðið mitt. Ég er fullfær um að gera það sjálfur og hef verið mjög skýr með að við eigum að spila betur með boltann,“ sagði Amorim.
Man Utd hefur tekið framförum í síðustu leikjum og vann þriðja deildarleikinn í röð er Brighton heimsótti United á Old Trafford í gær en leiknum lauk með 4-2 sigri heimamanna.
Liðið er nú komið upp fyrir Liverpool á töflunni, en Englandsmeistararnir töpuðu fjórða deildarleiknum í röð er það lá fyrir Brentford, 3-2, í Lundúnum.
Athugasemdir


