Í útvarpsþættinum Fótbolti.net, sem var frumfluttur í dag, var opinberað val á úrvalsliði ársins í Bestu deild karla 2025. Þetta er þrettánda árið í röð sem Fótbolti.net velur úrvalslið tímabilsins í efstu deild karla.
Frederik Schram - Valur
Það var ekki auðveldasta valið að velja markvörð liðsins. Frederik Schram spilaði 13 leiki með Val en hans síðasti leikur var 2-1 sigur gegn Breiðabliki í 18. umferð. Valur var á toppnum með tveggja stiga forystu þegar Frederik meiddist og hans var sárt saknað. Hann er besti markvörður deildarinnar að mati álitsgjafa Fótbolta.net.
Guðmundur Kristjánsson - Stjarnan
Flottur fulltrúi Stjörnunnar í liði ársins. Þessi áreiðanlegi og reynslumikli varnarmaður hefur átt fantaflott tímabil og skilað sínu hlutverki vel, sama hvort það hefur verið sem bakvörður eða miðvörður. Var síðast í liði ársins 2020, þá sem leikmaður FH.
Gunnar Vatnhamar - Víkingur
Þriðja tímabilið hans á Íslandi og í öll skiptin hefur hann verið valinn í lið ársins. Færeyski landsliðsmaðurinn er magnaður og tölfræðin sýnir það svart á hvítu að Víkingar eru miklu betri þegar hann spilar.
Oliver Ekroth - Víkingur
Í annað sinn á þremur árum í liði ársins. Ekroth tók við fyrirliðabandinu hjá Víkingum fyrir tímabilið og leiddi liðið til Íslandsmeistaratitils. Frammistaða hans var það öflug að hann gerði sterkt tilkall í að vera leikmaður ársins.
Helgi Guðjónsson - Víkingur
Ein skemmtilegasta saga sumarsins að Helgi Guðjónsson, sem hefur verið þekktur sem sóknarmaður, sé skyndilega einn besti bakvörður landsins. Tekur virkan þátt í sóknarleiknum úr bakvarðarstöðunni og hefur komið að fjölmörgum mörkum.
Simon Tibbling - Fram
Fram á sinn fulltrúa í liði ársins og það er sænski miðjumaðurinn Simon Tibbling. Þessi smái en knái leikmaður hefur sýnt gæði sín og er stórskemmtilegur leikmaður. Ferilskrá hans lýgur ekki og hann hefur reynst Fram mikill liðsstyrkur.
Daníel Hafsteinsson - Víkingur
Hágæðaleikmaður sem Víkingar fengu frá KA og hann hefur orðið enn betri með fleiri góða leikmenn í kringum sig. Féll strax eins og flís við rass í lið Víkings og var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði þeirra.
Gylfi Þór Sigurðsson - Víkingur
Fékk gagnrýni í upphafi tímabils en svaraði henni inni á vellinum. Hans fyrsti Íslandsmeistaratitill er kominn í hús. Algjörlega frábært tímabil hjá Gylfa sem var líka í liði ársins á síðasta ári.
Valdimar Þór Ingimundarson - Víkingur
Hefur verið átta sinnum valinn í lið umferðarinnar, oftar en nokkur annar þetta tímabilið. Hann hugsaði sér til hreyfings um mitt tímabil en sprakk svo algjörlega út og var besti leikmaður tímabilsins. Algjörlega geggjaður leikmaður.
Hallgrímur Mar Steingrímsson - KA
Eini leikmaðurinn úr neðri hlutanum sem kemst í þetta úrvalslið. Það þarf ekkert að útskýra ástæðuna fyrir því fyrir íslenskum fótboltaáhugamönnum. Hallgrímur er töframaður sem gerir Bestu deildina skemmtilegri.
Patrick Pedersen - Valur
Markakóngur deildarinnar og gerði tilkall í að vera leikmaður ársins. 18 mörk í 19 leikjum hjá þessum ótrúlega markaskorara og Valsliðið var ekki samt eftir að hann meiddist. Hvað ef....?

Varamannabekkur:
Marcel Zapytowski - ÍBV
Kennie Chopart - Fram
Hólmar Örn Eyjólfsson - Valur
Alex Freyr Hilmarsson - ÍBV
Daði Berg Jónsson - Vestri
Örvar Eggertsson - Stjarnan
Aron Sigurðarson - KR
Tryggvi Hrafn Haraldsson - Valur
Sigurður Bjartur Hallsson - FH
Sjá einnig:
Lið ársins 2024
Lið ársins 2023
Lið ársins 2022
Lið ársins 2021
Lið ársins 2020
Lið ársins 2019
Lið ársins 2018
Lið ársins 2017
Lið ársins 2016
Lið ársins 2015
Lið ársins 2014
Lið ársins 2013
Lið ársins 2012
Lið ársins 2011
Athugasemdir



