Leið illa í Belgíu en blómstrar í Noregi
'Ég vil standa mig vel fyrir sjálfan mig og liðið, það að það sé áhugi skiptir mig ekki máli varðandi það, ég vil alltaf standa mig vel'
'Það er mjög líklegt að lífið mitt væri allt öðruvísi ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun á sínum tíma, en ég er frekar viss um að ég myndi ekki breyta þeirri ákvörðun. Þetta var bara mín leið'
'Það er alveg gaman að heyra að það sé áhugi, en mér líður mjög vel hérna og ef ekkert breytist þá er ég samt mjög glaður að vera hérna og klára tímabilið'
'Í þessu liði skiptir mig miklu máli að frammistaða liðsins sé góð, þá eru færin að koma og ég líklegur til að skora'
Stefán Ingi Sigurðarson, framherji Sandefjord, hefur átt frábært tímabil í Noregi. Hann hefur verið iðinn við kolann, skorað þrettán mörk í 21 deildarleik og lagt upp eitt. Hann er þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar og það eru mörg félög sem fylgjast með gangi mála hjá Blikanum.
Hann er á sínu öðru tímabili hjá Sandefjord, kom frá belgíska félaginu Patro Eisden síðasta sumar og líður mjög vel í Suður-Noregi. Fótbolti.net sló á þráðinn til Stefáns.
Hann er á sínu öðru tímabili hjá Sandefjord, kom frá belgíska félaginu Patro Eisden síðasta sumar og líður mjög vel í Suður-Noregi. Fótbolti.net sló á þráðinn til Stefáns.
Þeim finnst galið að ég hafi mætt þegar við vorum neðstir
„Mér leið ekki vel í Belgíu, langaði að líða aftur vel í fótbolta og Sandefjord kom upp sem möguleiki. Þeir spila skemmtilegan fótbolta, voru vissulega að ströggla þegar ég mætti og voru neðstir í deildinni. Horfandi á leiki og öll tölfræði var allt sem benti til þess að liðið ætti að vera miklu ofar. Framherjinn fékk rosalega mikið af færum, en það gekk illa að nýta þau. Fyrir mig var þetta augljóst, góður staður til að vera á og fá tækifæri."
„Þetta var alveg áhætta, við höfum líka rætt þetta nokkrir vinirnir í klúbbnum, þeim finnst galið að ég hafi mætt þegar við vorum neðstir. En mér fannst samt einhvern veginn aldrei séns á að liðið myndi falla, fannst liðið það gott. Ég vissi ekki hvernig hópurinn væri, en mér fannst liðið alltof gott til að vera í þessari stöðu. Það sést í ár að liðið í fyrra var alltof gott til að vera á þeim stað sem það var."
„Ég byrja á því að koma inn af bekknum, byrja einhverja leiki en kem annars inn á, þetta var nokkuð jafnt milli mín og hins framherjans sem var fyrir. Hann var búinn að vera lengi hjá félaginu og þekkti leikkerfið mjög vel á meðan ég var að læra inn á. Það er mikil hápressa og þegar ég kom var ég ekki búinn með neitt undirbúningstímabil, líkamlega leið mér ekkert sérstaklega vel. Standið var þannig að ég gat ekki sýnt minn besta leik á síðasta tímabilið, leikirnir voru svolítið valdir út frá leikplaninu. Núna er þetta allt annað, ég fékk almennilegt undirbúningstímabilið og aðstæðurnar hérna betri en í Belgíu."
„Gengið var þannig að okkur gekk eiginlega alltaf ótrúlega vel á móti stóru liðunum, unnum Bodö/Glimt og Molde, en þegar við kepptum á móti liðunum í kringum okkur þá töpuðum við alltaf. Þannig var líka sagan áður en ég kom. Liðið tók held ég sex stig af Bodö og fjögur stig af Brann á síðasta tímabili, en á móti Odd sem féll þá náðist bara eitt stig, það gekk illa að klára liðin í kringum okkur."
„Þetta var ekki rosalega sannfærandi hvernig við héldum okkur, unnum Lilleström úti og felldum þá í næstsíðustu umferðinni. En fílingurinn var samt alltaf þannig að við myndum ekki falla," segir Stefán Ingi.
Stefán skoraði fjögur mörk seinni hluta síðasta tímabils og lagði upp eitt.
„Ég var ekki sáttur, ég fékk færi til að skora miklu meira, heilt yfir var ég ekki mjög sáttur með markafjöldann."
Í toppformi þökk sé Arnóri
Eins og Stefán nefndi náði hann heilu undirbúningstímabili og byrjaði mótið af krafti.
„Hugsunin var að ég myndi alltaf vera áfram hjá félaginu, ég nálgaðist þetta tímabil þannig að ég ætlaði að mæta í eins góðu líkamlegu standi og hægt væri. Ég kom inn í tímabilið 2024 um sumarið, kom beint úr fríi, var búinn að halda mér við sjálfur, en það er samt aðeins öðruvísi. Í Belgíu var undirbúningurinn öðruvísi en það sem ég var vanur á Íslandi og í Bandaríkjunum. Við vorum meira í að hlaupa langar vegalengdir í stað þess að hugsa um sprettmetra og svoleiðis. Ég var svolítið tjónaður eftir það, hugsunin var þannig að ég vildi mæta í mjög góðu standi í tímabilið 2025."
„Ég fylgdi prógramminu frá Arnóri, fínt að hafa einn íslenskan sem sendir þér og segir þér hvað eigi að gera. Þetta var miklu betra en sumarið á undan."
„Mér leið mjög vel allt undirbúningstímabilið, það voru smá meiðsli að stríða mér inn í fyrstu leikina, en samt leið mér eins og formið væri miklu betra en tímabilið áður. Mér fannst líka annar andi í liðinu. Það var ekki mikil breyting á leikstílnum. Þjálfarinn fór til Lilleström og aðstoðarþjálfarinn tók við. Við héldum sömu taktík í grunninn, nokkrir hlutir fínpússaðir og það hefur virkar vel."
Ekki stór hluti af uppspilinu en leiðir pressuna
„Hlutverkið mitt í uppspilinu er ekkert rosalega stórt, það hefur aðeins þróast þannig að ég hef verið að draga mig út á hægri kantinn og þá spilum við í raun ekki með neinn frammi. Í sóknarleiknum á ég að vera sá sem er inni í boxinu og klárar færin. Varnarlega á ég að leiða pressuna, bæði hápressu og lágpressu, pressum mikið, viljum halda boltanum hjá okkur. Ég fíla þetta hlutverk, hef mjög gaman af þessum leikstíl. Það er miklu skemmtilegra að vera með boltann og byggja upp sóknir, þó að ég sé kannski ekki mikill partur af uppspilinu. Það er skemmtilegra að pressa en að verjast alltaf í lágblokk. Þó að ég sé hávaxinn þá get ég alveg spilað svona hápressubolta þar sem ákefðin er mikil."
Framherjinn talaði um að hann hafi fundið fyrir öðrum anda í hópnum komandi inn í tímabilið 2025. Hann segir að það hafi verið meiri trú á að liðið væri gott. Þá hafi líka komið inn góðir leikmenn í hópinn og aðrir sem stigu upp.
Geðveikt að hafa hann í félaginu
Stefán nefndi Arnór áðan. Arnór Snær Guðmundsson er styrktarþjálfari Sandefjord, hann er líka styrktarþjálfari karlalandsliðsins.
„Það er geðveikt að hafa hann í félaginu, hann hefur hjálpað mér rosalega mikið, bæði innan og utan vallar. Það er mjög auðvelt að trúa honum og vita að það sem hann segir sé það rétta fyrir mann, hvort það séu hlaup, styrkur eða hvað sem það er. Það er rosalega gott að hafa einn svona mjög nálægt sér. Maður finnur hversu mikill fagmaður hann er."
Hugsar bara um næsta mark
Stefán hefur skorað þrettán mörk í deildinni á tímabilinu. Kemur markafjöldinn honum á óvart?
„Ég myndi ekki segja að þetta sé að koma mér sérlega á óvart. Mér hefur liðið þannig að ef ég myndi fá færi þá myndi ég geta skorað mörk, mér hefur liðið þannig í öllum liðum. Ef ég fæ færi þá veit ég að get skorað. Það skiptir máli að færin koma, núna er verið að leita mikið að mér og það hjálpar."
„Maður setur sér alltaf markmið, ég byrjaði á því að stefna á fyrsta markið, svo eftir það horfði ég í fimm mörk og byggði ofan á það. Ég var með minni markmið sem voru nær mér, og svo horfði ég líka stærra á þetta."
„Þegar ég var kominn með níu mörk hugsaði ég um tíunda markið. Núna hugsa ég í rauninni bara um næsta mark, hef þetta einfalt."
Skiptir miklu máli fyrir Stefán að liðið spili vel
Mörk Stefáns hafa öll nema eitt komið í sigurleikjum. Sem framherji, spáir maður í því að mörkin telji?
„Auðvitað viltu að mörkin þín telji eitthvað. Ég pæli ekki í því á meðan leik stendur, en þú vilt að mörkin skipti máli og hjálpi liðinu."
Er einhver tegund af marki sem þú hefur skorað oftar en einu sinni á þessu tímabili?
„Ég á alltaf að vera á fjærstönginni, við erum með örvfættan hægri kantmann sem er með mjög góðar sendingar. Hann hefur náð nokkrum á mig þar sem hann setur á fjær og ég er mættur þar til að skalla. Það er það sem þjálfarinn leitar að núna, vill að ég sé á fjær."
Þegar þú labbar inn á völlinn þessa dagana, líður þér þá eins og þú sért að fara skora, það séu miklar líkur á því?
„Maður pælir alveg í því. Þegar þú ert í takti og að skora, þá líður þér alltaf eins og þú sért líklegur til að skora. Það hjálpar alveg. En fyrst og fremst hjá okkur skiptir svo miklu máli að við séum að spila góðan leik, við þurfum að hlaupa mikið, vera mikið með boltann og þora að spila honum. Í þessu liði skiptir mig miklu máli að frammistaða liðsins sé góð, þá eru færin að koma og ég líklegur til að skora."
Hefði tekið vítið
Sandefjord hefur einungis fengið eina vítaspyrnu á tímabilinu og Stefán var farinn af velli svo hann gat ekki tekið hana. Öll mörk hans hafa því komið úr opnum leik.
„Ég er vítaskytta liðsins, það var búið að taka mig út af, hefði annars tekið vítið. Það var ekkert svekkjandi að missa af því að taka víti, það var bara svekkjandi að við töpuðum leiknum. Við erum búnir að fá frekar mikið af vítum á móti okkur, sum hver mjög ódýr. Okkur finnst eins og við ættum að vera búnir að fá mun fleiri víti, atvik sem séu augljósari en þau sem hafa lent á móti okkur."
Sandefjord hefur einungis fengið eitt víti á tímabilinu sem er það minnsta í Eliteserien ásamt Strömsgodset. Sandefjord hefur hins vegar fengið á sig ellefu vítaspyrnur sem er það mesta í deildinni.
Skorar ef hann fær færi
Stefán er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar sem stendur, þremur mörkum á eftir Daniel Karlsbakk og fjórum mörkum á eftir fyrrum Valsaranum Kasper Högh.
„Auðvitað er maður var við hvernig þetta lítur út, ég er með mín persónulegu markmið og er að keppast við leikmenn í kringum mig. Maður getur ekki spáð of mikið í listanum, en ef maður getur keppt við leikmann eins og Kasper Högh í Bodö/Glimt, þá er það nokkuð gott, sérstaklega þegar maður er með núll víti á tímabilinu. Bodö er með yfirburði í eiginleg öllum leikjum og ef ég get keppt við hann þá ætti ég að vera ágætlega sáttur. En auðvitað vil ég hafa betur í baráttunni."
NTB hefur valið Stefán í lið umferðarinnar fimm sinnum.
„Sjálfstraustið núna er í flottum málum. Þetta er aðeins öðruvísi en þegar ég var í Breiðabliki, þetta er allt önnur deild miðað við þá íslensku, og svo þegar ég var í HK vissi ég alltaf að ég myndi skora. Núna skiptir meira máli að liðsframmistaðan sé til staðar, því ef við sem lið erum ekki að spila vel þá koma ekki færi. Þá skiptir sjálfstraustið ekki máli, ég þarf færi til þess að eiga séns að skora. Mér líður mjög vel núna og líður eins og að ef ég fæ færi þá muni ég skora. Það er góð tilfinning."
Mistökin mega ekki hafa of mikil áhrif
Sitja klúðruð færi í þér, leyfir þú þeirri hugsun að lifa til að halda þér á tánum?
„Það er ekkert rosalega mikið af færum sem sitja í manni, auðvitað er maður aðeins svekktur með öll færi sem maður nýtir ekki, en í síðustu leikjum hefur ekki verið svo mikið um færi. Það var eitt í leiknum gegn Haugasund sem ég hefði viljað skora úr um daginn var ég svona þremur sentímetrum frá því að pota boltanum inn en náði ekki að teygja mig í hann. En þannig er þetta bara í fótbolta, þú getur ekki verið á öllum stöðum í einu og klárað öll færi. Þú getur klikkað á færi og allir geta gert mistök. Þú vilt helst ekki gera mistökin aftur, en á sama tíma viltu ekki að það hafi of mikil áhrif á þig."
Yrði langbesti árangur í sögu félagsins
Sandefjord situr í fimmta sæti, liðið er átta stigum á eftir Tromsö í fjórða sætinu þegar sex leikir eru eftir og Sandefjord á leik til góða.
„Það er bara það klassíska, einn leikur í einu. Um leið og þú ferð að horfa eitthvað lengra þá missir þú stjórn á hlutunum og fellur niður töfluna. Ef við höldum áfram að vinna, þá gæti eitthvað gerst, en annars ætlum við að reyna halda okkur eins og við erum."
„Ég er ágætlega sáttur við tímabilið til þessa, þegar maður er á þessum stað og í keppni um markakóngstitilinn þá horfir maður í það að hafa misst af þremur leikjum, en það er bara eins og það er. Ég get verið, og er, sáttur við tímabilið til þessa."
„Ef við endum í fimmta sæti verður það langbesti árangur félagsins í sögunni. Ég held að menn verði alveg sáttir við það. Svekkelsið er aðallega að hafa tekið rúmlega mánaðarkafla þar sem við unnum ekki leik. Það hefur svolítið skemmt fyrir okkur núna í því að vera ekki í enn betri málum. Við bara vorum ekki nógu góðir á þeim kafla og þess vegna töpuðum við stigum."
Fyndið að sjá frétt um mögulega heimkomu
Það var aldrei hugsunin að horfa í kringum sig síðasta vetur og skoða aðra möguleika? Stefán var t.a.m. orðaður við heimkomu í Breiðablik.
„Það var ekkert til í því, ég var nýbúinn á fundi með þjálfurunum eftir tímabil, tóku alla leikmenn á fund og ræða næsta skref og næsta tímabil. Ég var mjög spenntur fyrir næsta tímabili. Svo settist ég út í bíl, opnaði Lummuna og sá að fyrsta fréttin var að ég væri orðaður heim til Blikanna. Það var ekki neitt til í því. Mér fannst þetta bara fyndið."
Gaman að það sé áhugi en það breytir ekki nálguninni
Það hefur heyrst að mörg félög séu að fylgjast með Stefáni. Miklir markaskorarar í norsku deildinni vekja athygli á sér, bæði innanlands og í stærri deildir Evrópu.
„Það er alveg gaman að heyra að það sé áhugi og maður býst alltaf við því að það sé einhver að fylgjast með. Ég vil standa mig vel fyrir sjálfan mig og liðið, það að það sé áhugi skiptir mig ekki máli varðandi það, ég vil alltaf standa mig vel."
„Það kemur svo bara í ljós hverjir það eru sem eru að fylgjast með og hversu mikinn áhuga þeir hafa, og svo kannski gerist eitthvað í janúar. Ég ætla mér að klára tímabilið vel og þá ættu góðir hlutir að gerast."
Upp á framtíðina, í draumaheimi, hvert væri þitt næsta skref á ferlinum?
„Ég gæti ekki svarað því. Það eru margar leiðir sem þú getur tekið í þessu lífi og á ferlinum. Ég tók mjög óhefðbundna leið og fór til Bandaríkjanna á sínum tíma, líklegast hefur það aðeins hægt á fótboltaferlinum. Ég get ekki sagt hvert draumaskrefið á ferlinum sé, það geta komið upp margir spennandi möguleikar og maður veit aldrei með það fyrr en eftir á."
Var fasteignakeðju frá því að fara til Svíþjóðar
Það var talsverður áhugi á Stefáni í sumarglugganum og hann var nálægt því að fara frá Sandefjord.
„Ég var mjög nálægt því að fara. Það var í raun bara fasteignakeðja, leikmenn sem hefðu þurft að hreyfast en gerðu það ekki, sem stoppaði það. Síðustu 2-3 dagana var smá stress yfir stöðunni, en ég var mjög fljótur að koma mér inn á það hugarfar að ég væri áfram leikmaður Sandefjord og ætlaði mér að klára þetta tímabil vel. Ég var sáttur við það niðurstöðu að fá að klára tímabilið því ég hef ekki fengið að gera það oft á ferlinum."
Slúðrað var um áhuga frá sænska félaginu Djurgården og svo var einnig fjallað um áhuga frá Póllandi.
Yrðu vonbrigði að vera áfram í Sandefjord á næsta tímabili?
„Nei, en þú vilt alltaf vera að taka næsta skref á ferlinum, en það yrðu engin vonbrigði að vera áfram. Mér líður vel hérna. Ef færið gefst og tækifærið er rétt, þá vill maður taka næsta skref. Það þarf bara að koma í ljós."
Ef þú horfir eitt ár til baka, ákvörðunin að fara í Sandefjord, hvernig líður þér með hana?
„Besta ákvörðun sem ég hef tekið," sagði Stefán einfaldlega.
„Það var bara mín leið"
Varðandi þessa ákvörðun að hafa farið í háskólaboltann á sínum tíma, er einhver eftirsjá með hana?
„Það er hægt að hugsa þetta á marga vegu, á þeim tíma var ákvörðunin ekki mjög galin. Ég var ekki partur af meistaraflokki Breiðabliks, var nýbúinn að vera á láni hjá Augnabliki. Það var ekki eins og ég hafi verið neitt rosalega nálægt meistaraflokknum. Það var ekkert fyrr en ég var búinn að segja þjálfurunum að ég væri að fara út, þá fór ég að koma inn á æfingar. Í lokin, áður en ég fór út, var ég byrjaður að mæta á allar æfingar og var einu sinni á bekknum. Það er hægt að horfa á skólavelið líka."
„Ég hefði getað valið aðeins betri fótboltaskóla, fengið aðeins lægra skrifaða menntun, hefði líka getað farið í verri fótboltaskóla og verið með miklu betri menntun. Þetta var bara mín leið, ég lærði mikið úti, bæði námslega og fótboltalega, læri á öðruvísi fótbolta. Ég hafði alltaf verið í Breiðabliki, þetta var annar stíll af fótbolta sem maður þurfti að læra. Ég held að þetta hafi bara verið fínt, maður reynir að sjá ekki eftir neinu svona. Það er mjög líklegt að lífið mitt væri allt öðruvísi ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun á sínum tíma, en ég er frekar viss um að ég myndi ekki breyta þeirri ákvörðun. Þetta var bara mín leið," segir Stefán Ingi.
Framherjinn á að baki leiki með U16 og U17 ára landsliðinu, en enga með U19 eða U21. Hvernig horfir hann til baka á það?
„Ég fór út í háskólaboltann og fékk þau skilaboð að ég yrði ekki valinn á meðan ég væri þar. Á þeim tíma var minna kredit gefið í háskólaboltann og erfiðara fyrir menn að mæta á úrtaksæfingar þegar þú ert í annarri heimsálfu. Ég var alltaf framherji númer tvö á eftir Andra Lucasi. Það var ekki þannig að aðalframherjinn hefði dottið út þegar ég datt út, ég á tvo byrjunarliðsleiki held ég með U17, hinir voru af bekknum."
Stefnan sett á landsliðið
Það hefur verið umræða um hvort Stefán ætti að fá sénsinn í íslenska landsliðshópnum hjá Arnari Gunnlaugssyni. Hvernig sér hann landsliðið í dag?
„Auðvitað er stefnan alltaf á landsliðið. Eina sem ég get gert er að reyna standa mig eins vel og ég get með félagsliði mínu og treysta á að þjálfarinn velji mig. Ég get ekki gert mikið meira en það," segir Stefán ingi að lokum.
Athugasemdir



