Þorlákur Már Árnason, þjálfari ÍBV, var vonsvikinn með frammistöðu liðsins í síðari hálfleik í 4-3 tapinu gegn KA um Forsetabikarinn í lokaumferð Bestu deildar karla í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 3 - 4 KA
Eyjamenn gátu unnið Forsetabikarinn en til þess þurfti liðið að vinna KA.
Staðan var 2-2 í hálfleik en Þorlákur, sem tók út leikbann í dag, var ósáttur með frammistöðuna í síðari hálfleik.
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn bara gríðarlega skemmtilegur og spila mjög vel í fyrri hálfleik og alger klaufamörk sem við fáum á okkur en seinni hálfleikurinn fór í tóma vitleysu. Auðvitað var það þannig að við þurftum að vinna til að fá Forsetabikarinn en þetta var eins og æfing í seinni hálfleik. Rosalega furðulegur fótboltaleikur og agaleysi hjá okkur. Það er 3-3 á 93. mínútu, miðvörðinn kominn fram og hinn miðvörðurinn á miðjunni til að flikka boltanum og enginn í vörn. Mjög kjánalegt og mjög ólíkt ÍBV-liðinu í sumar,“ sagði Þorlákur.
Hann grínaðist svo létt með það að leiknum hafi verið flýtt svo Hallgrímur Jónasson og lærisveinar hans gætu fagnað snemma í kvöld.
„Maður verður að viðurkenna að spennustigið hjá báðum liðum er lægra. Það er ákveðið að flýta þessum leik svo Haddi geti fengið sér í kvöld snemma og þá er búið að setja tóninn. Við ákváðum að henda öllum inn og gefa þeim 25 mínútur og þá er Oliver að meiðast og farinn út af. Þannig þú færð þetta allt í andlitið,“ sagði Þorlákur við Fótbolta.net.
Hann fer einnig yfir leikmannamálin og hvernig upplifun það var að taka út leikbann í lokaumferðinni.
Athugasemdir

























