Santos, Baleba, Wharton, Anderson, Gallagher og Stiller á lista Man Utd - Rashford vill ganga alfarið í raðir Barcelona
banner
   fös 24. október 2025 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gæti verið að kveðja KA eftir mjög skrítið sumar - „Mér finnst það býsna súrt"
Er að ljúka sínu átjánda tímabili í meistaraflokki.
Er að ljúka sínu átjánda tímabili í meistaraflokki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðarnir síðasta sunnudag, Andri Fannar og Rúnar Már Sigurjónsson. Þeir hafa mæst nokkrum sinnum á ferlinum.
Fyrirliðarnir síðasta sunnudag, Andri Fannar og Rúnar Már Sigurjónsson. Þeir hafa mæst nokkrum sinnum á ferlinum.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Deano á stuttbuxunum á hliðarlínunni.
Deano á stuttbuxunum á hliðarlínunni.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leiknum gegn ÍA.
Úr leiknum gegn ÍA.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Á Laugardalsvelli í ágúst í fyrra.
Á Laugardalsvelli í ágúst í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klukkan 12:00 á morgun verður flautað til leiks á Hásteinsvelli og þar munu heimamenn í ÍBV taka á móti KA í lokaumferð Bestu deildarinnar. Sigurliðið í leiknum mun enda í 7. sæti deildarinnar, KA er með þremur stigum meira en ÍBV en Eyjamenn eru með betri markatölu.

Í síðasta leik, gegn ÍA, bar Andri Fannar Stefánsson fyrirliðabandið hjá KA og vangaveltur um hvort það hafi verið hans síðasti heimaleikur í gulu og bláu treyjunni.

Var eins gert í fyrra með annan reynslubolta
„Ég hugsaði alveg hvort þetta væri minn síðasti heimaleikur með KA. Það er ekkert komið á hreint, en þetta var gert í fyrra þegar Elfar Árni var að kveðja félagið, þá tók hann einn leik með fyrirliðabandið og við ákváðum að gera þetta líka núna," segir Andri Fannar.

„Mig langar að spila áfram, en það fer eftir ýmsu. Ég verð að vera hreinskilinn með það að spiltíminn í sumar hefur ekki verið eðlilegur. Með fullri virðingu fyrir frábærum samherjum, þá er ég pottþéttur á því að það eru leikir sem ég hefði getað hjálpað liðinu í. Mér finnst það býsna súrt."

Andri Fannar, sem er fæddur 1991, er að ljúka sínu 18. tímabili i meistaraflokki. Hann hóf ferilinn hjá KA og var þar fyrstu þrjú tímabilin, hann var svo í níu tímabil hjá Val og vann fjóra stóra titla. Hann sneri svo til baka í KA fyrir 2019 og varð bikarmeistari með uppeldisfélaginu í fyrra.

Sá þetta ekki svona fyrir sér í vor
Miðjumaðurinn spilaði í fyrstu umferð gegn KR en svo liðu fimm og hálfur mánuður þangað til að hann sá völlinn aftur. Það var einmitt gegn KR. Hann spilaði ekki í 25 leikjum í röð í öllum keppnum, var 21 sinni ónotaður varamaður og fjórum sinnum utan hóps. Leikurinn gegn ÍA um síðustu helgi var hans þriðji leikur á tímabilinu.

„Nei, ég veit í rauninni ekki af hverju ég spilaði ekkert. Ég hef nálgast þetta þannig að ég hef alltaf æft rosa vel og haldið háum standard í því. Ég er að þjálfa mjög flotta unga stráka og hef alltaf lagt mikið upp úr því að vera bæði fyrirmynd og góður liðsfélagi. Mögulega hefur verið auðveldara stundum að hafa mig á bekknum heldur en einhvern annan. Maður er ekkert brjálaður þó að maður spili ekkert alla leiki, en þetta hefur kannski ekki alveg verið eðlilegt í sumar."

Á þessum langa kafla án þess að spila, hugsaðir þú aldrei hvað þú værir að gera?

„Ég hef fengið þessa spurningu oft í sumar, meira að segja frá liðsfélögum. Ég hef alltaf svarað því að mér finnst ógeðslega gaman í fótbolta, við erum með frábæran hóp og liðsfélagarnir skemmtilegir. Maður er ekki í neinu þunglyndi að vera ekki að spila alla leiki, en þetta hefði átt að vera töluvert öðruvísi. Ég sá þetta ekki fyrir mér í vor, ég var að taka þátt í flestum leikjum þá, var í góðu standi og ekkert mál. Bjóst ekki alveg við þessu."

Vaknaði peppaður og rifjað upp gamla tíma
Andra Fannari leið mjög vel með fyrirliðabandið í síðasta leik. Hann lagði upp annað mark KA fyrir Hallgrím Mar Steingrímsson.

„Miðað við að hafa ekki spilað lengi fann ég að var í nokkuð góðu standi og var eiginlega frekar fúll að fara út af eftir um klukkutíma, hefði viljað spila lengur. Þetta var skemmtilegt, ég var stundum fyrirliði í gamla daga þegar ég var að byrja ferilinn. Dean Martin sem er núna hjá Skaganum í stuttbuxunum, hann minntist á það fyrir leikinn þegar hann sá skýrsluna að hann hefði þjálfað mig í 5. og 7. flokki í KA á sínum tíma og var þjálfari minn í meistaraflokki þegar ég var að byrja. Þá var ég stundum með bandið og það kominn langur vegur síðan, það hefur verið 2008. Mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og þetta var skemmtileg upplifun."

„Það var skemmtileg tilfinning á leikdegi, þetta er dálítið öðruvísi þegar maður veit að maður er að fara spila. Ég var örugglega manna peppaðastur að vakna þann morguninn, maður hafði saknað þess dálítið."


Tekur stöðuna eftir frí
Segjum að leikurinn gegn ÍBV verði síðasti leikurinn fyrir KA, niðurstaðan sú að þú fengir ekki nýjan samning hjá félaginu, sæir þú fyrir þér að halda áfram að spila?

„Ég ætla ekki að taka þá ákvörðun að hætta strax. Ég mun taka mér smá frí með fjölskyldunni í nóvember og taka stöðuna. Ég er í mjög skemmtilegu starfi hjá Abler og er að þjálfa mjög skemmtilega hópa í KA. Maður þarf að vega og meta hvað maður gerir og í hvað maður notar tímann."

„Þetta er skrítin tilfinning eftir þetta sumar, maður hefði viljað taka meiri þátt í sumrinu, en maður hefur bara gefið af sér á æfingu, verið góður liðsfélagi. Ég er stoltur af því hvernig ég hef tæklað það."


Glatað að þetta gott lið sé ekki í efri hlutanum
Framundan er leikurinn gegn ÍBV. Skiptir máli að vinna hann, enda í 7. sæti?

„Í mínum huga finnst mér alveg glatað að við séum ekki í efri hlutanum verandi með þetta gott lið. Sjöunda sætið er það besta úr því sem komið er, við vorum komnir í frekar djúpa holu í júní/júlí. Það er alltaf betra að fara inn í veturinn með góða tilfinningu. Þetta er klassískur leikur þar sem menn geta farið inn í leikinn og notið þess að spila fótbolta, það er engin pressa. Það er bara að hafa gaman, svo förum við norður, fylgjumst með hinum leikjunum og lokahóf um kvöldið. Þetta ætti bara að vera skemmtilegur leikur og vonandi klárum við þetta almennilega."

„Spáin er fín skilst mér, svo er Ásgeir búinn að liggja yfir ölduspánni þannig að við ættum að komast inn í Landeyjarhöfn. Þannig við náum vonandi norður fyrir 21-22 annað kvöld,"
segir Andri Fannar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner