mán 27. janúar 2020 21:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Enski bikarinn: Spenna undir lokin í sigri Arsenal
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Bournemouth 1 - 2 Arsenal
0-1 Bukayo Saka ('5 )
0-2 Edward Nketiah ('26 )
1-2 Sam Surridge ('90+5)

Í kvöld fór fram leikur Bournemouth og Arsenal í 4. umferð FA bikarkeppninnar. Fyrir leikinn í kvöld var vitað að sigurvegari þessarar viðureignar myndi mæta Portsmouth á útivelli í næstu umferð.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, gerði fimm breytingar á sínu liði frá jafnteflinu gegn Chelsea í síðustu viku. Arsenal komst yfir strax á 5. mínútu þegar Bukayo Saka fékk sendingu frá Gabriel Martinelli inn á teiginn og þrumaði knettinum yfir Mark Travers í marki Bournemouth.

Travers varði á 20. mínútu frá Joe Willock en á 26. mínútu kom Eddie Nketiah boltanum í netið eftir sendingu frá Saka. Markið var skoðað í VAR vegna mögulegrar rangstöðu. Markið stóð, gott og gilt. Þetta var í þriðja sinn í vetur sem Saka skorar og leggur upp í sama leiknum. Þá var þetta annar útileikurinn í röð sem Nketiah skorar fyrir Arsenal í. Síðasti leikur var á síðustu leiktíð.

Á 62. mínútu varð að Shkodran Mustafi að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Mustafi var borinn af velli og inn kom Rob Holding.

Dan Gosling fékk fínt færi á 81. míníutu en varnarmaður Arsenal komst í veg fyrir skottilraun Gosling. Á 94. mínútu fékk varamaðurinn Sam Surridge boltann fyrir miðju marki Arsenal. Simon Francis átti sendingu inn á teiginn sem Dan Gosling lét vera, Surridge, sem kom inn á á 89. mínútu, skoraði með skoti af stuttu færi.

Markið var skoðað í VAR. Skoðað var hvort Gosling hefði snert boltann en sú snerting hefði gert Surridge rangstæðan. Engin sást snertingin og því markið dæmt gott og gilt. Mörkin urðu ekki fleiri þó spilað væri fram á 101. mínútu vegna tafa. Arsenal er því komið áfram í 5. umferð.
Athugasemdir
banner
banner