mið 27. janúar 2021 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Berbatov finnst Man Utd ekki þurfa Sancho: Van de Beek tvö
Jadon Sancho hefur verið mikið orðaður við Man Utd.
Jadon Sancho hefur verið mikið orðaður við Man Utd.
Mynd: Getty Images
Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United, telur að félagið þurfi ekki á Jadon Sancho, leikmanni Borussia Dortmund, að halda.

Þýska blaðið Bild sagði í vikunni að Dortmund muni líklega selja Sancho á komandi sumri.

Manchester United hefur lengi horft til enska vængmannsins en tilraunir félagsins til að landa honum hafa hingað til ekki borið neinn árangur.

Berbatov er á því að Sancho myndi ekki endilega komast í lið United.

„Hann væri Donny van de Beek tvö," sagði Berbatov. „Hann er frábær leikmaður en þú getur líka verið með of mikið af hæfileikaríkum leikmönnum í hópnum. Cavani hefur reynst mjög vel, tekur þú hann bara úr liðinu?"

Van de Beek var keyptur frá Ajax síðasta sumar en hefur átt erfitt með að vinna sér sæti í liðinu hjá United.

„Sancho er góður leikmaður og þetta snýst um það hvort þú vilt hafa það lúxusvandamál að geta hvílt leikmenn. Það er ekki gott samtal, ég segi það af reynslu."

Sancho hefur ekki verið eins góður og hann var á síðasta tímabili en er þó kominn með sex mörk og tíu stoðsendingar í öllum keppnum.

Man Utd keypti nýlega táninginn Amad Diallo frá Atalanta á Ítalíu. Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, segist sjá Diallo fyrir sér á hægri kantinum hjá liðinu. Sancho getur bæði spilað á hægri og vinstri kanti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner