Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   lau 27. febrúar 2021 15:41
Victor Pálsson
Furðulegt atvik í ensku úrvalsdeildinni - Markið dæmt af í tvígang
Mason allt í öllu.
Mason allt í öllu.
Mynd: Getty Images
Það kom upp stórfurðulegt atvik í leik West Brom og Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag en leikurinn er í gangi er þetta er skrifað.

West Brom komst yfir í leiknum í dag en Kyle Bartley sá um að skora það mark þegar 11 mínútur voru liðnar.

Brighton fékk svo vítaspyrnu ekki löngu seinna en Pascal Gross mistókst að koma boltanum í netið og skaut í slá.

Á 30. mínútu virtist Brighton svo hafa jafnað metin er Lewis Dunk skoraði beint úr aukaspyrnu sem var dæmd rétt fyrir utan teig.

Sam Johnstone var ekki tilbúinn í marki West Brom en Lee Mason, dómari, virtist hafa flautað leikinn í gang og ætti markið því að vera gott og gilt.

Mason ákvað strax að þetta mark yrði ekki dæmt gilt en eftir samræður við VAR-herbergið var ákveðið að leyfa því að standa.

Leikmenn Brighton fögnuðu markinu en stuttu seinna var markið tekið aftur af og gestaliðinu skipað að taka aukaspyrnuna aftur.

Samkvæmt úrvalsdeildinni hafði Mason flautað tvisvar í flautu sína frekar en einu sinni og var markið því tekið af Brighton. Fyrra flautið á að hafa verið til að stöðva leikinn en það seinna því boltinn var kominn á ferð. Allt mjög undarlegt.

Dunk reyndi aftur við aukaspyrnuna en þá fór boltinn beint á Johnstone í markinu og staðan því enn 1-0 fyrir West Brom.
Athugasemdir
banner
banner