mán 27. mars 2023 08:00
Brynjar Ingi Erluson
„Ótrúlegt hvernig Kompany hefur komið öllu þessu saman"
Jóhann Berg Guðmundsson er í nýju hlutverki hjá Burnley
Jóhann Berg Guðmundsson er í nýju hlutverki hjá Burnley
Mynd: Getty Images
Vincent Kompany
Vincent Kompany
Mynd: Getty Images
Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson hefur lært ýmislegt af þessu tímabili með Burnley undir stjórn Vincent Kompany, en hann lofsamaði belgíska stjórann í viðtali við Fótbolta.net í gær.

Blikinn hefur fengið nýtt hlutverk á þessari leiktíð hjá Burnley en eftir að hafa spilað á vængnum stærstan hluta ferilsins er hann nú að spila á miðjunni.

Hann spilaði það hlutverk í báðum landsleikjunum gegn Bosníu & Hersegóvínu og Liechtenstein, en hann segist gríðarlega hrifinn af þessu nýja og skemmtilega hlutverki.

„Við spilum með eina sexu og tvær áttur. Ég er mikið með boltann og ég er mikið inn í því að byggja upp spil og koma þessum fremstu þrem á boltann og inn í teig. Skemmtilegt fyrir mig að spila undir Kompany á miðjunni og gefið mér annað sem ég hef ekki verið að gera undanfarið. Það er gríðarlega gaman og gaman að geta tekið þátt í þessu.“

Burnley er að tæta í sig ensku B-deildinni en liðið er aðeins þremur sigrum frá því að tryggja sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni, aðeins tæpu ári eftir að hafa fallið úr deildinni. Sean Dyche var látinn fara undir lok síðasta tímabils og Kompany síðan ráðinn um sumarið. Sú ráðning hefur gengið fullkomlega upp.

„Já, mjög skemmtilegt. Í byrjun tímabils vissu ekki margir hvað væri að vænda frá Burnley. Margir sem fóru og úrvalsdeildarreynsla sem fór og mikið af útlendingum sem komu og maður veit aldrei hvernig þeir taka í að spila þennan enska bolta, en hvernig Kompany hefur komið þessu saman er hreint út sagt ótrúlegt og allt hefur gengið upp og erum að spila frábæran fótbolta og gríðarlega þakklátur að fá að taka þátt í þessu öllu saman.“

„Eins og við höfum talað um og hann sjálfur er að við erum ekki í fyrsta sæti í Championship heldur í 21. sæti í Englandi og veit að við þurfum að verða betra og við vitum það alveg. Við höfum sýnt á þessu tímabili með að slá Bournemouth úr bikarnum og fórum á Old Trafford og spiluðum mjög vel, en fengum smá skell á móti Man City en hver sem er getur lent í því. Við höfum sýnt að við getum spilað þennan fótbolta í úrvalsdeildinni en auðvitað vitum við að það verður töluvert erfiðara.“


Jóhann Berg er þá að íhuga það að fara út í þjálfun eftir ferilinn en Kompany hefur veitt honum mikinn innblástur. Stefnan er að minnsta kosti að klára þjálfaragráðurnar.

„Já, algjörlega. Kompany er taktískur snillingur, það er alveg óhætt að segja það og hvernig hann horfir á fótbolta gaf mér eitthvað sem ég gæti þurft inn í þjálfun og vildi gera. Ég mun klárlega taka þjálfaragráðurnar og svo sjáum við hvað ég mun gera við það,“ sagði Jóhann Berg í lokin við Fótbolta.net.
Jói Berg: Mín þrenna er miklu betri en hans!
Athugasemdir
banner
banner
banner