Unai Emery, stjóri Aston Villa, var vitaskuld glaður með 2-1 sigurinn á Tottenham í Lundúnum í gær, en er ekki farinn að hugsa um Meistaradeildarsæti.
Sigur Aston Villa fleytti liðinu upp í 4. sæti deildarinnar, þar sem það er með 28 stig, jafnmörg og Liverpool og aðeins tveimur stigum frá toppnum.
Villa-menn hafa byrjað vel og vonar Emery að leikmenn njóti þess að vera í þessari stöðu.
„Það eru sjö lið sem eru í meiri baráttu en við að ná efstu sjö sætunum. Við munum reyna að njóta þessa vera þarna og auðvitað halda okkur þar. Manchester City, Manchester United, Liverpool, Arsenal, Chelsea og Newcastle eru þarna. Við getum fengið meira sjálfstraust úr þessu, en fyrir mér er það enn morgunljóst að við þurfum jafnvægi. Þetta eru 38 leikir og við þurfum að sýna stöðugleika,“ sagði Emery.
„Við erum í góðri stöðu akkúrat núna, en erum ekki í baráttunni. Við verðum að vera ánægðir, njóta, en líka vera kröfuharðir. Núna munum við hvílast og hugsa um fimmtudaginn og svo leikinn gegn Bournemouth á sunnudag,“ sagði Emery ennfremur.
Athugasemdir