Heimild: Sky Sports
Stuðningsmannafélag Shrewsbury Town sakar þýska knattspyrnustjórann Jurgen Klopp og Liverpool um vanvirðingu í garð félagsins og FA-bikarsins.
Liverpool mætti Shrewsbury úr C-deild í enska bikarnum síðasta sunnudag. Liverpool komst í 2-0, en Shrewsbury kom til baka og náði jafntefli. Það tryggði þeim endurtekinn leik á Anfield.
Klopp sagði strax eftir 2-2 jafnteflið að Liverpool myndi senda varalið til leiks í leiknum gegn Shrewsbury á Anfield.
Hann sagði jafnframt að hann myndi ekki stýra Liverpool í leiknum, en þegar leikurinn fer fram verður aðallið félagsins í vetrarfríi. Neil Critchley, þjálfari U23 liðs Liverpool, mun stýra liðinu.
„Ég gæti vissulega stýrt liðinu í leiknum en það er betra fyrir þá að hafa sinn þjálfara og það er Critch," sagði Klopp í dag.
Talsmaður stuðningsmannafélags Shrewsbury segir þetta ekki sanngjarnt fyrir stuðningsmenn félagsins sem voru spenntir að sjá stjörnur Liverpool gegn sínu liði.
Klopp tefldi líka fram hálfgerðu varaliði í 2-2 jafnteflinu. Hann gerði 11 breytingar á milli leikja, frá 2-1 sigrinum á Wolves í ensku úrvalsdeildinni og í leiknum gegn Shrewsbury.
„Þetta er vanvirðing. Knattspyrnustjórinn á að vera á öllum leikjum. Stuðningsmenn Shrewsbury eru mjög vonsviknir," sagði stuðningsmannafélag Shrewsbury.
Sigurliðið í þessu einvígi mætir Chelsea í næstu umferð bikarsins.
Athugasemdir