Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 28. febrúar 2021 12:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Wolves leyfði 'næsta Bruno Fernandes' að fara
Pedro Goncalves hefur átt frábært tímabil með Sporting Lissabon.
Pedro Goncalves hefur átt frábært tímabil með Sporting Lissabon.
Mynd: Getty Images
Goncalves var seldur frá Úlfunum.
Goncalves var seldur frá Úlfunum.
Mynd: Getty Images
Pedro Goncalves hefur verið kallaður 'hinn næsti Bruno Fernandes'. Hann er 22 ára gamall og er markahæsti leikmaður portúgölsku úrvalsdeildarinnar.

Goncalves var fenginn til að leysa Fernandes af hólmi hjá Sporting Lissabon eftir að miðjumaðurinn fór til Manchester United þar sem hann hefur slegið í gegn. Goncalves kom frá Famalicão og skrifaði undir fimm ára samning. Núna er hann orðaður við 50 milljón punda félagaskipti til stærstu félagsliða Evrópu, þar á meðal hefur hann verið orðaður við Liverpool og Manchester United.

Það vekur athygli að fyrir 18 mánuðum síðan var Goncalves, sem er miðjumaður, á mála hjá Wolves á Englandi.

Fjallað er um það hjá The Athletic. Þar segir að hann hafi verið besti leikmaðurinn í U23 liði félagsins sem komst upp í efstu deild eftir að hafa unnið 3-2 sigur á Manchester United. Hann spilaði þrátt fyrir það bara einn leik með aðalliðinu, en sá leikur kom í 2-0 sigri á Sheffield Wednesday í deildabikarnum árið 2018.

Wolves fannst hann ekki vera tilbúinn að láta til sín taka í aðalliðinu og þótti best að selja hann. Hann var seldur til Famalicão fyrir að því er talið vera 1,3 milljónir evra. Einn starfsmaður Wolves sagði í samtali við The Athletic að fótboltamenn eigi það til að þróast hraðar þegar þeir eru seldir, frekar en þegar þeir eru lánaðir. „Þegar leikmenn eru á láni þá þróast þeir stundum ekki mikið því þeir eru með öryggisnet."

Það eru samt dæmi um leikmenn á Englandi sem hafa farið á láni í neðri deildir og staðið sig svo eftir að hafa komið til baka. Harvey Barnes hjá Leicester og Mason Mount hjá Chelsea eru dæmi um það. Goncalves var hins vegar seldur og hann hefur þróað leik sinn hratt.

Wolves bjóst ekki við því að hann myndi fá mörg tækifæri með aðalliðinu en setti ákvæði í samning hans um að félagið myndi fá hluta af næstu tveimur félagskiptum hans. Fram kemur hjá The Athletic. Wolves er nú þegar búið að fá 1,33 milljónir punda fyrir félagaskipti hans frá Famalicão til Sporting.

Úlfarnir eru ekki fyrsta félagið til að selja leikmann sem nær svo árangri annars staðar en þeir gætu nagað sig aldeilis í handarbökin varðandi Goncalves sem hefur hjálpað Sporting að komast á toppinn í Portúgal. Liðið færist með hverjum deginum nær sínum fyrsta deildartitli í tæp 20 ár og á Goncalves stóran þátt í þeim árangri. Á meðan hafa Úlfarnir átt erfitt tímabil í Englandi og sitja í 12. sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner