þri 30. júní 2020 19:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pepsi Max-kvenna: Elín Metta komin með sjö mörk í fjórum leikjum
Elín Metta er óstöðvandi í byrjun móts.
Elín Metta er óstöðvandi í byrjun móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV 1 - 3 Valur
0-1 Elín Metta Jensen ('4 )
0-2 Elín Metta Jensen ('48 )
1-2 Grace Elizabeth Haven Hancock ('56 )
1-3 Bergdís Fanney Einarsdóttir ('65 )
Lestu um leikinn

Valskonur gerðu þrjár breytingar á sínu liði frá stórsigrinum gegn Þór/KA fyrir leik liðsins í kvöld gegn ÍBV. Þær Lillý Rut Hlynsdóttir, Ída Marín Hermannsdóttir og Diljá Ýr Zomers byrjuðu ekki í kvöld en inn komu Dóra María Lárusdóttir, Ásdís Karen Halldórsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir. Diljá og Ída voru á varamannabekknum en Lillý lék ekki með þar sem hún er í sóttkví ásamt Guðrúnu Karítas Sigurðardóttur, mbl.is greinir frá.

Fjarvera Lillýjar hafði ekki sýnilega áhrif á Valskonur, allavega ekki til að byrja með, því Elín Metta Jensen kom gestunum yfir strax á 4. mínútu.

„Einhvern veginn komst Elín í gegnum vörnina og kláraði vel með vinstri," skrifaði Eyþór Daði Kjartansson í beinni textalýsingu um fyrsta mark leiksins.

Elín hefur skorað í öllum fjórum leikjum Vals til þessa. 0-1 var staðan í hálfleik en Elín kom Val í 0-2 á 48. mínútu eftir sendingu Elísu Viðarsdóttur. Grace Hancock minnkaði muninn skömmu síðar með skalla eftir aukaspyrnu. Varamaðurinn Bergdís Fanney Einarsdóttir kom Val í 3-1 á 65. mínútu eftir undirbúning frá Mettu.

Mörkin urðu ekki fleiri í kvöld og er Valur nú eitt á toppi deildarinnar með tólf stig. Breiðablik er í öðru sæti með níu stig og eiga grænar leik til góða. Sá leikur mun ekki fara fram í þessari viku þar sem liðið er í sóttkví.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner