Osimhen fer til Lundúna - Tuchel aftur til Englands - Zidane til Bayern? - Bayern og Liverpool berjast um Alonso
banner
   fös 30. september 2022 22:17
Ívan Guðjón Baldursson
Everton sektað um tæpar 50 milljónir króna
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Everton hefur fengið sekt sem hljóðar upp á 300 þúsund pund eftir að stuðningsmenn félagsins ruddust inn á völlinn í mögnuðum endurkomusigri gegn Crystal Palace í næstsíðustu umferð síðasta tímabils.


Everton bjargaði sér frá falli með góðum úrslitum undir lok tímabilsins og var sigrinum hetjulega gegn Crystal Palace fagnað innilega. 

Áhorfendur ruddu sér fyrst leið inn á völlinn til að fagna sigurmarki Dominic Calvert-Lewin á 85. mínútu og svo aftur að leikslokum.

Einhverjir af stuðningsmönnum Everton voru með ógnandi tilburði og beittu ofbeldi inni á vellinum sem varð til þess að knattspyrnusambandið ákvað að beita óvanalega hárri sekt.

Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Palace, lenti í átökum við einn áhorfenda og ræddi við lögreglu en fór hvorki fram á rannsókn né vildi leggja fram kæru.

Everton viðurkenndi að félaginu hafi mistekist að hafa stjórn á áhorfendum en svipað gerðist þegar Nottingham Forest sigraði gegn Sheffield United í umspili Championship deildarinnar. Þar spretti stuðningsmaður Forest að Billy Sharp, leikmanni Sheffield, og skallaði hann í jörðina eftir leikslok.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner