Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 30. september 2022 17:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
KR þarf áfram að borga laun Halls þó hann spili kannski ekki meira
Hallur í leik með KR í sumar.
Hallur í leik með KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Meiddist illa gegn Víkingum.
Meiddist illa gegn Víkingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Hansson, fyrirliði Færeyja.
Hallur Hansson, fyrirliði Færeyja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Færeyski landsliðsfyrirliðinn Hallur Hansson, miðjumaður KR, verður frá í níu til tólf mánuði vegna alvarlegra hnémeiðsla.

Það verður að koma í ljós hvort hann geti eitthvað spilað á næsta tímabili en það er alls ekki víst.

Hallur, sem er samningsbundinn KR út næsta tímabil, var borinn af velli á börum í 2-2 jafnteflisleik Víkings og KR fyrr í þessum mánuði. Hallur meiddist í baráttu við Kyle McLagan, varnarmann Víkings.

„Hann er meiddur það sem eftir er af samningi hans hjá KR," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag.

Sú umræða hefur verið í gangi að Hallur sé einn launahæsti leikmaður deildarinnar - og svo er spurning hvort það sé satt - en í samtali við Fréttablaðið sagði Lúð­vík S. Georgsson, for­maður aðal­stjórnar KR, að fjárhagsstaðan í stærri deildum KR væri slæm þessa stundina.

„Þetta er dýrt spaug. Þetta er leiðinlegt fyrir hann en við fengum Lúðvík sjálfan til að segja okkur að þeir væru í fjárhagskröggum. Við þurfum ekki að tala um það eins og það sé leyndarmál," sagði Tómas Þór Þórðarson í þættinum.

„Sagan segir að hann sé með 1,5 milljón króna á mánuði, þetta eru 18 kúlur yfir eitt ár. Svo veit maður ekki, er KR að borga launin hans eða er það einhver utanaðkomandi? Maður veit það ekki. Þetta er dýrt," sagði Elvar.

„Svo er spurning hvort menn séu tryggðir fyrir svona, hvort hann fái pening frá tryggingastofnun. Ég held að það sé eitthvað þannig í gangi," sagði Tómas.

En samkvæmt heimildum Fótbolta.net er KR ekki með meiðslatryggingu sem dekkar það að laun Halls séu borguð á meðan hann er meiddur, það sé ekki mögulegt fyrir félagið.

KR þarf áfram að borga launin á meðan hann er samningsbundinn félaginu. Eftir því sem Fótbolti.net hefur heyrt þá er alls ekki algengt að félög á Íslandi séu með tryggingar sem hjálpa til við launakostnað í erfiðum meiðslum, en tryggingafélögin hér á landi bjóði almennt ekki upp á þá lausn.

Í nokkrum öðrum löndum - þar á meðal Þýskalandi - þekkist það að leikmenn missi laun sín eftir að þeir eru búnir að vera meiddir í ákveðinn tíma. Þarf því að finna ákveðna tryggingu til að halda launum sínum. Í Þýskalandi þurfa félög bara að borga meiddum leikmönnum laun í sex vikur en svo kemur tryggingakerfið inn í mixtúruna.

Það eru engar slíkar reglur á Íslandi og þurfa félög á Íslandi að halda áfram að borga laun samningsbundinna leikmanna á meðan þeir eru í meiðslum, allavega er staðan þannig með færeyska landsliðsfyrirliðann og KR. Þetta er klárlega eitthvað sem þarf að skoða betur.

Þess ber að geta að ef Hallur hefði meiðst í landsleik með Færeyjum þá hefði KR fengið bætur fyrir því frá UEFA.

„Við sendum auðvitað Halli batakveðjur og vonandi snýr hann sem fyrst á fótboltavöllinn," sagði Elvar.

Hallur er 30 ára gamall og gekk í raðir KR fyrir þetta tímabil. Hann spilaði 19 leiki í Bestu deildinni í sumar og skoraði eitt mark.
Útvarpsþátturinn - Stóru fréttirnar að norðan, landsliðin og bestir í Bestu
Athugasemdir
banner
banner
banner