Valdimar Þór Ingimundarson skoraði tvö og lagði upp eitt í 3-1 sigri Sogndal á Jerv í norsku B-deildinni í dag. Alfreð Finnbogason og Jón Dagur Þorsteinsson lögðu þá báðir upp í belgísku úrvalsdeildinni.
Fylkismaðurinn Valdimar skoraði á 23. mínútu fyrir Sogndal, áður en hann lagði upp annað markið undir lok hálfleiksins. Hann gerði síðan þriðja mark Sogndal þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Glæsileg frammistaða.
Jónatan Ingi Jónsson og Óskar Borgþórsson komu báðir inn af bekknum á 65. mínútu. Sogndal er í 5. sæti B-deildarinnar með 38 stig.
Brynjólfur Andersen Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund sem tapaði fyrir KFUM Oslo, 2-0, en hann fór af velli á 63. mínútu. Kristiansund er í 6. sæti með 35 stig.
Bjarni Mark Antonsson lék allan leikinn fyrir Start sem tapaði fyrir Sandnes, 1-0. Högg fyrir Start í baráttunni um að komast beint upp úr B-deildinni, en liðið er í 4. sæti með 39 stig.
Heiðar Geir Júlíusson stýrði Örn-Horten í markalausa jafnteflinu gegn Lyn í C-deildinni í Noregi. Nokkuð góð úrslit hjá Örn-Horten, gegn liði sem er í baráttu um að komast upp. Lærisveinar Heiðars eru í 8. sæti með 25 stig.
Stoðsendingar hjá Alfreð og Jóni Degi
Alfreð Finnbogason lagði upp eina mark Eupen í 3-1 tapi gegn Anderlecht. Alfreð og Guðlaugur Victor Pálsson spiluðu allan leikinn fyrir Eupen sem er í 11. sæti deildarinnar með aðeins 10 stig.
Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp eina mark Leuven í 2-1 tapi gegn Standard Liege. Leuven er í 13. sæti með 9 stig.
Willum Þór Willumsson lék allan leikinn fyrir Go Ahead Eagles sem tapaði fyrir hollenska meistaraliðinu Feyenoord, 3-1, í deildinni í dag. Eagles eru í 6. sæti með 10 stig.
Viðar Örn KJartansson kom inn af bekknum í hálfleik er CSKA 1948 Sofia vann 2-1 sigur á Botev Vratsa í búlgörsku úrvalsdeildinni, en CSKA er í 6. sæti með 18 stig.
Annar Selfyssingur, Jón Daði Böðvarsson, kom inn af bekknum á 65. mínútu í 1-0 sigri Bolton Wanderers á Port Vale í ensku C-deildinni. Bolton er í 4. sæti með 17 stig.
Jökull Andrésson fékk að líta rauða spjaldið í 2-0 tapi Carlisle gegn Wycombe Wanderers í ensku C-deildinni. Hann þarf að játa á sig mistök í atvikinu, en hann lagði boltann fyrir framan sig áður en Sam Vokes kom aftan að honum, stal boltanum áður en Jökull handlék boltann utan teigs. Klaufalegt.
Red card for #CUFC’s Jokull Andresson after Sam Vokes snuck behind him and the GK handled to trying to prevent a goal. pic.twitter.com/e3qCghhx8w
— Wycombe Wanderers Gibraltar (@WWFCGibraltar) September 30, 2023
Orri Steinn fékk höfuðhögg í tapi gegn Sverri
Sverrir Ingi Ingason hafði betur gegn Orra Steini Óskarssyni er Midtjylland og FCK mættust í dönsku úrvalsdeildinni, en leiknum lauk með 2-0 sigri Midtjylland.
Orri Steinn fékk höfuðhögg í leiknum og þurfti að fara af velli eftir klukkutímaleik.
Sverrir Ingi fór af velli þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum. FCK er áfram á toppnum með 22 stig en Midtjylland í 5. sæti með 17 stig.
Atli Barkarson lék allan leikinn í vörn SönderjyskE sem vann B93, 4-0, í dönsku B-deildinni. Kristall Máni Ingason var ónotaður varamaður hjá SönderjyskE, sem er í 2. sæti deildarinnar með 24 stig.
Rúnar Már SIgurjónsson var í byrjunarliði Voluntari sem gerði markalaust jafntefli við UTA Arad í rúmensku úrvalsdeildinni. Hann fór af velli undir lok leiks, en Voluntari er í 12. sæti með 11 stig.
Þórir Jóhann Helgason kom inn af bekknum á 81. mínútu er Braunschweig tapaði fyrir Hansa Rostock, 1-0, í þýsku B-deildinni, en Hólmbert Aron Friðjónsson var ónotaður varamaður í 2-0 sigri Holsten Kiel á Karlsruher. Kiel er í þriðja sæti með 15 stig, en Braunschweigh með 5 stig í 17. sæti.
Elías Rafn Ólafsson stóð í marki CD Mafra sem gerði 1-1 jafntefli við Maritimo í portúgölsku B-deildinni. Mafra er í 6. sæti með 10 stig.
Þrír Íslendingar komu við sögu í 1-0 sigri Norrköping á Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Norrköping á meðan Davíð Kristján Ólafsson var í liði Kalmar.
Ari Freyr Skúlason kom inn af bekknum fyrir Arnór Ingva á 77. mínútu. Norrköping er í 5. sæti með 38 stig en Kalmar í 7. sæti með 36 stig. Ísak Andri Sigurgeirsson sat allan tímann á bekknum hjá Norrköping.
Milos Milojevic stýrði Al-Wasl sem gerði 3-3 jafntefli við Khorfakkan í sameinuðu arabísku furstaríkjunum. Al-Wasl komst 3-0 yfir og þá missti Khorfakkan tvo menn af velli með rautt spjald, en náði samt að bjarga stigi. Al-Wasl er í 3. sæti með 10 stig.
Athugasemdir