Manchester liðin og fleiri vilja Semenyo - Arsenal í viðræðum við Saka - Barcelona bíður með ákvörðun um Rashford
banner
   þri 30. september 2025 10:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Davíð Smára var sagt upp - „Sökudólgur í því að hafa sett viðmið Vestra á allt annan stað en þau voru áður"
'Ég viðurkenni að ég var hissa'
'Ég viðurkenni að ég var hissa'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Náði frábærum árangri með Vestra.
Náði frábærum árangri með Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gerði Vestra að bikarmeisturum.
Gerði Vestra að bikarmeisturum.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Davíð Smára Lamude var sagt upp störfum sem þjálfari Vestra í gær. Hann staðfestir það í samtali við Fótbolti.net. Davíð hefur gert frábæra hluti með Vestra, fór upp með liðið úr Lengjudeildinni 2023, hélt liðinu uppi í Bestu deildinni 2024 og varð bikarmeistari með liðinu á þessu tímabili.

Það var hins vegar farið að halla undan fæti og eftir bikarúrslitaleikinn hefur Vestri ekki unnið leik og einungis eru tvö stig niður í fallsæti. Fótbolti.net ræddi við Davíð í dag.

„Mér var bara sagt upp. Mér var tilkynnt að það yrði stjórnarfundur seinna um daginn þar sem framtíð félagsins yrði rædd, rætt yrði hvað yrði best fyrir framtíð félagsins og hvort það þyrfti að fara í breytingar. Ég spurði hvernig breytingar, hvort það væri verið að tala um mig, svarið var játandi og svo var mér tilkynnt að félagið ætlaði sér að fara í breytingar og ég bara tek því. Ég viðurkenni að ég var hissa," segir Davíð Smári.

„Eftir sitja mikið af góðum tilfinningum, ótrúlegur árangur sem við höfum náð síðastliðin ár og ég er mjög þakklátur fyrir það fólk sem ég hef unnið með á þeim tíma og þakklátur fyrir að hafa náð að virkja allt samfélagið fyrir vestan. Ég tengdi vel við fólkið, ótrúlega gott fólk. Ég átti í mjög góðum samskiptum og eftir sitja jákvæðar tilfinningar."

„Ég taldi mig fullfæran til að klára þetta verkefni sem framundan er. Ég á ekki marga leiki sem hægt er að kalla hreina úrslitaleiki sem hafa tapast. Auðvitað hafa síðustu tveir leikir verið slæmir, það er klárt mál, en eftir situr að við erum bikarmeistarar og við erum tveimur stigum frá því að vera í fallsæti þegar þrír leikir eru eftir á móti liðum sem við getum unnið. Ég hafði fulla trú á þessu sjálfur, það er alveg klárt."


Fannst þér ákvörðun Vestra ósanngjörn?

„Það verða aðrir að dæma um það. Ég verð að horfast í augu við það að ég er sökudólgur í því að hafa sett viðmið Vestra á allt annan stað heldur en þau voru áður en ég tók við félaginu. Ég er kannski fórnarlamb þess. Liðið var í topp 6 í 20. umferð, en þá fór að halla undan fæti. Eftir bikarleikinn hefur þetta verið mjög erfitt og það eru ákveðnar ástæður fyrir því, en ég ætla ekki að koma inn á þær núna."

„Ég horfi til baka þakklátur, gríðarlega ánægður með liðið. Þetta er krefjandi verkefni að búa til nýtt lið á hverju einasta ári fyrir vestan og aðstæðurnar hjá liðinu eru svolítið öðruvísi en fyrir lið í Reykjavík. Að hafa orðið bikarmeistari með þessu liði og hafa verið nánast allt mótið í topp 6 er fyrir mér stórkostlegur árangur og eitthvað sem ég mun vera stoltur af um aldur og ævi. Ég er líka þakklátur þeim leikmönnum sem voru tilbúnir að taka þátt í þessu af þeirri ákefð sem þeir gerðu. Allt leikmenn sem voru tilbúnir að deyja fyrir félagið. Ég er ánægður og stoltur ef ég á að vera alveg hreinskilinn,"
segir Davíð Smári.

Nánar var rætt við Davíð og verður meira úr viðtalinu birt seinna í dag.

Jón Þór Hauksson hefur verið ráðinn þjálfari Vestra út tímabilið.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 24 9 6 9 30 - 29 +1 33
2.    KA 24 9 5 10 35 - 44 -9 32
3.    ÍA 24 9 1 14 33 - 45 -12 28
4.    Vestri 24 8 3 13 23 - 37 -14 27
5.    Afturelding 24 6 7 11 33 - 42 -9 25
6.    KR 24 6 6 12 46 - 58 -12 24
Athugasemdir
banner
banner