Liverpool vill Summerville - Newcastle reynir við landsliðsmenn - McKenna, Maresca og Frank á blaði Chelsea
   fös 31. mars 2023 13:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Erum með uppskrift en höfum ekki notað neitt af henni“
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson á Laugardalsvelli.
Arnar Þór Viðarsson á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það sem við erum að heyra er að Arnar hafi vitað það að þetta væri búið eftir leikinn í Bosníu
„Það sem við erum að heyra er að Arnar hafi vitað það að þetta væri búið eftir leikinn í Bosníu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rætt var um brottrekstur Arnars Þórs Viðarssonar úr landsliðsþjálfarastarfinu í útvarpsþættinum Fótbolti.net í dag. Þátturinn var frumfluttur í hlaðvarpsútgáfu þessa vikuna.

Meðal annars var rætt um tímasetningu brottrekstursins. Talað hefur verið um að Arnar hefði átt að fá traustið lengur fyrst hann fékk yfirhöfuð traustið til að byrja þessa undankeppni.

„Þessi tímapunktur finnst mér segja að fólk hafi séð að það væri ekki hægt að ná þessu lengra. Þessi stjórn hjá KSÍ, með Vöndu, er ekki rekandi til að leika sér. Ég held að þau hafi séð að þetta væri algjörlega búið," segir Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net.

„Að þjálfari sé rekinn í byrjun undankeppni eða í henni miðri hefur aldrei gerst, ekki í einhverja áratugi. Menn klára undankeppni og svo er skipt," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, sem var gestur í þættinum.

„Ívar Ingimarsson er formaður landsliðsnefndar og var með í ferðinni. Hann situr svo þennan stjórnarfund. Þessi ákvörðun er ekki tekin af þessu fólki nema það hafi séð að þetta gæti ekki gengið lengra. Spilamennskan var ekki góð og úrslitin léleg," segir Elvar.

Búið að reyna að selja okkur að liðið hefði verið í mótun fyrir þessa undankeppni
Tómas Þór Þórðarson setur spurningamerki við það að Arnar hafi verið áfram í starfinu fyrir þessa undankeppni fyrst hann var greinilega ekki með fullt traust.

„Traustið getur ekki hafa verið mikið, farandi í þessa undankeppni. Það getur ekki hafa verið 100% ef einn tapleikur, sama hversu slæmur sá leikur var, sé nóg til að láta hann fara," segir Tómas.

„Ég skil stjórnina. Við erum búin að vera með landslið í uppbyggingu, sem sumir segja reyndar að eigi ekki að gerast með landslið og það eigi bara að vera í núinu. Við töpuðum ekki bara fyrir Bosníu heldur gátum við ekki neitt. Það var búið að reyna að selja okkur að þetta væri lið í mótun og væri búið að vera í mótun í tvö og hálft ár fyrir þessa undankeppni," segir Elvar.

„Heimir (Hallgrímsson) fékk símtalið í fyrra og þetta var greinilega í umræðunni þá (að skipta um þjálfara). Það hefur kannski verið best að klára málið þá ef þetta var á svona ótraustum grunni. Frekar að vaða í að skipta um þjálfara þá ef þetta var ekki traustara en þetta, eitt tap og búið," segir Magnús.

Var alls ekki með þjóðina með sér og þá er þetta erfitt
Í þættinum er rætt um að hluti af ástæðunni fyrir óvinsældum Arnars er að hann hafi verið andlit KSÍ í gegnum 'Me too' bylgjuna og að hann hafi látið Lars Lagerback fara ásamt því að lenda í deilum við Gumma Ben. Ofan á það allt saman voru svo úrslitin ekki góð.

„Hann var alls ekki með þjóðina með sér og þá er þetta svo erfitt. Nýr þjálfari fær meiri stuðning á Laugardalsvelli akkúrat í dag. Hann ætti að geta það og verður að gera það vel. Heimir var frábær í þessu, að fá þjóðina á sitt band og alla með. Nýr þjálfari verður að ná þjóðinni með sér fyrir þessa mikilvægu leiki í júní, það er lykilatriði til að fá úrslit á heimavelli," segir Magnús.

„Það sem við erum að heyra er að Arnar hafi vitað það að þetta væri búið eftir leikinn í Bosníu. Hann hætti að heyra í nokkrum, sama hvort það var formaður landsliðsnefndar eða formaður KSÍ. Það voru allavega einhver voðalega lítil samskipti. Þjálfaraleitin hófst bara daginn eftir Bosníuleikinn, Liechtensteinleikurinn skipti engu máli og Arnar vissi það," segir Tómas.

„Maður tók eftir því í Bosníuleiknum, varðandi leikkerfið, taktíkina og hvernig Arnar stýrði þeim leik, marga sem voru búnir að bakka hann upp fram að leiknum snúast á móti," segir Elvar.

Á íslenska liðið að umbyltast?
Aðferðarfræði Arnars hefur fengið talsverða gagnrýni.

„Þetta er líka spurning um leikstíl. Ég vil sjálfur halda boltanum og spila fótbolta þannig en er það íslenska landsliðsins að gera það? Á íslenska landsliðið að umbyltast úr því að vera 35% með boltann en ganga vel en ætla að spila allt annan fótbolta á bara nokkrum árum. Það eru að einhverju leyti sömu leikmenn, það eru að koma flinkir leikmenn inn en þú þarft að gera þetta í hægari skrefum," segir Magnús.

„Við erum með uppskrift og það er spurning að nota hluta af henni en mér finnst við ekki hafa notað neitt af henni. Varnarleikur númer eitt, nýta föst leikatriði, leyfa andstæðingnum að vera með boltann en frekar vera með varnarleikinn á hreinu. Nú ætlum við að reyna að spila meira en það gengur illa að skapa færi og varnarleikurinn í messi. Við vorum með bragðgóða rétti fyrir fjórum árum en erum ekki að nota neitt af uppskriftinni."

Framkoma hans til fyrirmyndar
Í lok umræðunnar var talað um að þrátt fyrir allt mótlætið og umræðuna hafi Arnar haldið góðum samskiptum við fjölmiðla.

„Hann má eiga það Arnar að í gegnum alla gagnrýnina þá lét hann það aldrei bitna á samskiptum við fjölmiðla. Hann var allur mjög faglegur í sínu starfi hvað það varðar," segir Elvar.

„Mér finnst einmitt öll framkoma hans til mikillar fyrirmyndar. Það var aldrei hvæst. Við höfum þekkt þá marga sem fara bara í stríðið, bæði hér heima og annars staðar," segir Tómas.

„Miðað við allt sem gekk á hefði það verið auðveldara fyrir hann en marga aðra en hann gerði það ekki," segir Magnús.
Útvarpsþátturinn - Arnar rekinn og rýnt í Bestu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner