Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 07. maí 2008 09:00
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 4.sæti
Mynd: Agl.is - Gunnar
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sætinu í þessari spá voru Fjarðabyggð sem fengu 171 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Fjarðabyggð.

.
4.sæti: Fjarðabyggð.
Búningar: Rauð treyja, dökkbláar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.kff.is

Ef spá fyrirliða og þjálfara í 1. deild karla gengur eftir þá mun Fjarðabyggð ná að bæta sinn árangur frá því í fyrra og enda sæti ofar. Uppgangur liðsins hefur verið mikill síðan það komst upp úr 3. deildinni 2004 og verður spennandi að sjá hvort hann haldi áfram í sumar. Liðið kom á óvart í fyrra þó það hafi dalað talsvert seinni hluta móts.

Þorvaldur Örlygsson er hættur með liðið og í staðinn er kominn Magni Fannberg sem er að takast á við sína stærstu prófraun til þessa sem þjálfari. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum og Fjarðabyggð m.a. misst miðjumennina Halldór Hermann Jónsson og Jón Gunnar Eysteinsson til liða í Landsbankadeildinni. Þá verður sóknarmaðurinn Andri Valur Ívarsson sem lék með þeim í fyrra í liði Fjölnis í sumar.

Í staðinn hefur liðið fengið Guðmund Andra Bjarnason frá Grindavík sem er góður liðsstyrkur og Aleksander Konjanovski, reyndan makedónskan miðjumann. Vilberg Marinó Jónasson kom frá Leikni Fáskrúðsfirði og er Magna til aðstoðar ásamt því að spila. Þá hefur liðið fengið Pétur Geir Svavarsson sem hefur verið iðinn við markaskorun í 3. deildinni en skrefið upp í 1. deildina er hinsvegar mjög stórt.

Fjarðabyggð hafnaði fyrir ofan 1. deildarliðin Njarðvík og Stjörnuna í riðli sínum í Lengjubikarnum en aðeins úrvalsdeildarlið voru þar fyrir ofan. Liðið er virkilega skipulagt og spilar þéttan og góðan varnarleik. Fyrir framan sterkan markvörð liðsins er miðvarðarparið Andri Hjörvar Albertsson og Haukur Ingvar Sigurbergsson sem náði virkilega vel saman í deildinni í fyrra.

Sóknarleikur liðsins er aðeins meira spurningamerki þó hann ætti ekki að verða neitt vandamál. Sóknarmenn Fjarðabyggðar búa ekki yfir mikilli reynslu ef frá er talinn Vilberg Marinó. Andri Valur skoraði sex mörk fyrir liðið í fyrra en næstu menn þar á eftir voru með þrjú og gæti liðinu vantað afgerandi markaskorara á komandi sumri.

Styrkleikar: Varnarleikurinn er klárlega helsti styrkur Fjarðabyggðar. Liðið er mjög vel mannað í öftustu línu. Vörnin er nánast sú sama og í fyrra en þá fékk liðið á sig fæst mörk allra í deildinni. Fyrir aftan vörnina er markvörðurinn Srdjan Rajkovic sem átti virkilega gott tímabil í fyrra og var valinn markvörður ársins í deildinni. Þá má ekki gleyma heimavellinum en lið Fjarðabyggðar er erfitt heim að sækja.

Veikleikar: Breiddin er ákveðið vandamál hjá Fjarðabyggð eins og reyndar fleiri liðum í deildinni. Ekki má það við því að missa marga hlekki úr byrjunarliðinu. Það sýndi sig í fyrra þar sem liðið dalaði talsvert seinni hlutann eftir virkilega góða byrjun. Breiddin hefur ekki mikið aukist síðan þá. Liðinu skortir ákveðna reynslu fram á við.

Þjálfari: Magni Fannberg. Magni er af mörgum talinn einn efnilegasti þjálfari landsins en hann er á 29. aldursári. Hann var yfirþjálfari yngri flokka hjá Val áður en hann tók við Fjarðabyggð en áður var hann aðstoðarþjálfari hjá Grindvíkingum og þar áður þjálfari hjá yngri flokkum HK. Hann er nú að fara að takast á við sína stærstu prófraun til þessa í þjálfarabransanum. Þorvaldur Örlygsson hefur gert frábæra hluti með Fjarðabyggð og erfitt að fylla hans skó.

Lykilmenn: Srdjan Rajkovic, Andri Hjörvar Albertsson og Guðmundur Atli Steinþórsson.

Komnir: Aleksander Konjanovski frá Makedóníu, Guðmundur Andri Bjarnason frá Grindavík, Pétur Geir Svavarsson frá BÍ/Bolungarvík, Vilberg Marinó Jónasson frá Leikni Fáskrúðsfirði, Sigurður Víðisson frá HK, Sveinbjörn Jónasson frá Huginn, Grétar Örn Ómarsson frá Sindra.

Farnir: Halldór Hermann Jónsson í Fram, Jón Gunnar Eysteinsson í Keflavík, Örn Kató Hauksson í Hamra/Vini, Andri Valur Ívarsson í Fjölni, William Geir Þorsteinsson í KS/Leiftur, Gísli Már Magnússon í Leikni Fáskrúðsfirði.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Fjarðabyggð 171 stig
5. Haukar 123 stig
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner