Egill "Gillz" Einarsson, eða Þykki, er ásamt hópi góðra manna staddur í Lundúnum og er á leiðinni á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld þar sem Barcelona og Manchester United mætast.
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net heyrði í Gillz í dag til að athuga stemninguna en þá var íslensku hópurinn úti að borða og gera sig klára í leikinn.
Egill sagði stemninguna vera rosalega í Lundúnum, það væri allt gjörsamlega stappað af fólki og nóg væri af stuðningsmönnum Barcelona. Því ágæta fólki sögðu þeir þó að grjóthalda kjafti enda miklir United-menn sjálfir.
Egill viðurkenndi að fiðringur væri kominn í hópinn eftir töflufund sem sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason hélt fyrir hópinn. Listaði hann þar uppi byrjunarlið kvöldsins og fór yfir styrkleika og veikleika liðanna.
Þó United sé ekki spáð sigri af flestum í kvöld er Egill harður á því að sínir menn komi á óvart og vinni leikinn. Spáði hann 3-2 sigri United þar sem Chicharito myndi skora tvö mörk og Wayne Rooney eitt.
Viðtalið allt úr útvarpsþættinum Fótbolti.net má hlusta á hér að ofan.




