Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 04. október 2011 17:20
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Skilaboð til KSÍ: Fjölmiðlar skipta ykkur máli
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
,,Á að þagga þennan stóra atburð niður?  Hvernig halda menn þá að mætingin verði?''
,,Á að þagga þennan stóra atburð niður? Hvernig halda menn þá að mætingin verði?''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Eyjólfur Sverrisson þjálfari liðsins hefur engan áhuga á fjölmiðlum.''
,,Eyjólfur Sverrisson þjálfari liðsins hefur engan áhuga á fjölmiðlum.''
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
,,Það kemur mér svosem ekkert á óvart að það mesta sem formaður sambandsins hefur viljað tjá sig um málið skuli vera í samtali við sænska fjölmiðla.''
,,Það kemur mér svosem ekkert á óvart að það mesta sem formaður sambandsins hefur viljað tjá sig um málið skuli vera í samtali við sænska fjölmiðla.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það virðist vera komin upp einhver undarleg staða hjá Knattspyrnusambandi Íslands þar sem menn líta á íslenska fjölmiðla sem fyrirbæri sem truflar þá og áhuginn á að vinna með þeim minnkar hratt.

Þetta er röng hugsun því án íslenskra fjölmiðla væri lítill ef nokkur áhugi á íslenskri knattspyrnu. Því fyrr sem sambandið áttar sig, þeim betra fyrir íþróttina.

Með aukinni umfjöllun fjölmiðla koma fleiri á völlinn, ekki bara á landsleiki, eða leiki í efstu deild, heldur í öllum deildum landsins.

Ekkert lagaðist eftir fundi Fíton með fjölmiðlum
Í árslok árið 2008 fékk KSÍ auglýsingastofuna Fíton til að setja saman rýnihópa fjölmiðlamanna þar sem þeim gæfist tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og hjálpa KSÍ að vinna með fjölmiðlum.

Nú veit ég ekki nákvæmlega hver niðurstaðan var eftir þessa vinnu en hitt veit ég að margt er að í samskiptum KSÍ og íslenskra fjölmiðla og staðan hefur versnað til muna eftir að þessir rýnihópar komu saman.

Formaðurinn tjáir sig meira við erlenda fjölmiðla
Þessa dagana stendur yfir ráðningaferli á framtíðar landsliðsþjálfara Íslands. Íslenskum fjölmiðlum hefur gengið illa að fá upplýsingar frá KSÍ um málið og sjálfur var ég vitni að því þegar Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri sambandsins sagði við íþróttafréttamann af Stöð 2 að hann svaraði honum ekki í síma því hann: ,,vissi alveg hvað þú ætlaðir að spyrja um."

Það kemur mér svosem ekkert á óvart að það mesta sem formaður sambandsins hefur viljað tjá sig um málið skuli vera í samtali við sænska fjölmiðla.

Kvennalandsliðið mætti ekki á opna æfingu
Af ýmsu er að taka í undarlegum atriðum í samskiptum fjölmiðla við sambandið. Síðastliðinn mánuð hafa komið upp nokkur atriði.

Til dæmis þegar kvennalandsliðið boðaði opna æfingu fyrir fjölmiðlum í stundarfjórðung í september.

Fjölmiðlaaðgangur var opinn 16:30 - 16:45 en það versta var að liðið mætti ekki á settum tíma og lítill tími var fyrir fjölmiðlamenn að staldra lengi við eftir þeim þar sem heil umferð byrjaði í Pepsi-deild karla 17:30.

Við slíka umferð þarf Fótbolti.net um 15 starfsmenn svo okkur reyndist útilokað að hinkra. Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari hefur reyndar beðist afsökunar á þessu síðan.

Á að þagga niður komu U21 árs landsliðs Englands?
Næstkomandi fimmtudag leikur U21 árs landslið Íslands gríðarlega stóran leik gegn Englendingum. Lið sem er uppfullt af leikmönnum sem leika í ensku úrvalsdeildinni sem er gríðarlega vinsæl hér á landi.

Þegar þetta er skrifað hafa fjölmiðlar ekki fengið neitt kynningaefni um leikinn frá sambandinu um að hann á annað borð fari fram. Á að þagga þennan stóra atburð niður? Hvernig halda menn þá að mætingin verði?

Eyjólfur hefur engan áhuga á fjölmiðlum
Eyjólfur Sverrisson þjálfari liðsins hefur engan áhuga á fjölmiðlum og hélt ekki fréttamannafund þegar leikmannahópurinn var tilkynntur og fjölmiðlar hafa ekki fengið neitt boð um að mæta á æfingar eða fréttamannafundi með liðinum. Þá svarar hann aldrei síma.

Í síðasta mánuði lék þetta sama U21 árs landslið tvo leiki í undankeppni EM 2013. Eftir fyrri leikinn neitaði Tómas Ingi Tómasson aðstoðarþjálfari sem stýrði liðinu í fjarveru Eyjólfs sem var í leikbanni að tala við fjölmiðla.

Eftir síðari leikinn óskaði Tómas Ingi eftir því að rætt yrði við Eyjólf sem þó var aftur í leikbanni. Virðing Eyjólfs við fjölmiðla var ekki meiri en svo að hann lét bíða eftir sér í 30 mínútur.

Mín skilaboð til ykkar allra, stjórn og starfsmenn KSÍ, landsliðsþjálfarar og allir. Íhugið hvort ekki sé kominn tími á að laga til hjá ykkur og vinna með fjölmiðlum. Það er bara til að efla íslenska knattspyrnu að menn vinni saman!
banner