sun 10. nóvember 2019 19:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mikael í byrjunarliðinu er Midtjylland vann FCK í toppslag
Mikael Neville Anderson.
Mikael Neville Anderson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Molde, fyrrum félag Ole Gunnar Solskjær, tryggði sér meistaratitilinn í Noregi.
Molde, fyrrum félag Ole Gunnar Solskjær, tryggði sér meistaratitilinn í Noregi.
Mynd: Getty Images
Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Midtjylland og lék 70 mínútur er Midtjylland lagði FC Kaupmannahöfn að velli í toppslag í dönsku úrvalsdeildinni.

Midtjylland leiddi 2-0 í hálfleik og komst 3-0 yfir á 52. mínútu. Dame N'Doye minnkaði muninn fyrir FCK á 56. mínútu, en fjórum mínútum síðar skoraði Erik Sviatchenko og kom Midtjylland í 4-1.

Þar við sat og þægilegur sigur Midtjylland sem er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar með sjö stiga forskot.

Mikael var á dögunum valinn í íslenska A-landsliðshópinn fyrir leikina gegn Tyrklandi og Moldóvu í undankeppni EM.

Sjá einnig:
Mikael: Vil vinna deildina og spila í Evrópu með Midtjylland

Hjörtur Hermannsson, sem er einnig í íslenska landsliðshópnum, var einnig í sigurliði í dönsku úrvalsdeildinni. Hann lék allan leikinn í vörn Bröndby sem vann 2-1 sigur á Esbjerg á heimavelli.

Bröndby er í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 31 stig, tíu stigum frá Midtjylland.

Sjá einnig:
Danmörk: Jón Dagur skoraði í sigri AGF

Molde meistari í Noregi - Arnór og Matthías spiluðu
Í norsku úrvalsdeildinni kláraðist 28. umferðin í dag. Molde tryggði sér meistaratitilinn með þægilegum heimasigri á Strømsgodset, 4-0. Fyrrum lærisveinar Ole Gunnar Solskjær meistarar.

Oliver Sigurjónsson er ekki í leikmannahópi Bodø/Glimt sem er að vinna Rosenborg í leik sem er núna í gangi. Oliver vill losna frá Bodø/Glimt, sem er í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Arnór Smárason lék allan leikinn fyrir Lilleström sem tapaði 1-3 á heimavelli gegn Stabæk. Lilleström er í 11. sæti og er ekki alveg sloppið við fall eftir mjög slakt gengi að undanförnu.

Matthías Vilhjálmsson lék þá allan leikinn hjá Vålerenga sem gerði markalaust jafntefli við Tromsö. Vålerenga er í tíunda sæti með fimm stigum meira en Lilleström.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner