„Mér líður bara vel. Það er gaman að vinna fótboltaleiki og manni líður alltaf vel eftir að vinna fótboltaleiki.“ sagði Haukur Páll, fyrirliði Vals, eftir 4-1 sigur á FH í seinasta heimaleik Vals á tímabilinu.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 1 FH
Haukur Páll þurfti að fara meiddur af velli eftir tæpan hálftímaleik en hann var búinn að kvarta nokkrum sinnum áður um einhver meiðsli.
„Ég veit ekki hvað þetta var. Ég gat ekki haldið áfram en vonandi er þetta ekkert alvarlegt. Ég veit í raun og veru ekki hvað kom fyrir en ég þurfti að biðja um skiptingu.“
Haukur vonast einnig eftir því að geta náð því að spila lokaleikinn sem verður á útivelli gegn Víkingi.
Haukur var hæstánægður með sína menn í dag og fannst þetta vera verðskuldaður sigur Valsmanna.
„Heilt yfir mjög góður leikur Valsliðsins. Heilt yfir sanngjarn sigur og margir góðir og flottir spilkaflar. Sanngjarnt bara.“
Það hafa margar sögur farið af stað um að þetta hafi mögulega verið seinasti heimaleikur Hauk Páls fyrir Val en hann er ekki viss með það.
„Nei. Ég er að renna út af samning og það verður bara að koma í ljós. Klúbburinn verður eiginlega bara að svara þér. Það er ekki ég sem býð mér nýjan samning en ég er ekki hættur í fótbolta. Ég hef ótrúlega gaman af þessu. Um leið og ég fæ leið af þessu mun ég hætta. Ég er í toppformi og langar ekki að hætta í fótbolta. En þú verður að fá svar við þessari spurningu frá einhverjum öðrum en mér.“
„Mér langar bara að halda áfram í fótbolta. Ef Valur býður mér nýjan samning þá skoða ég það. Hvað sem það verður, það verður bara að koma í ljós.“ sagði Haukur Páll að lokum eftir 4-1 sigur Valsliðsins á FH í kvöld.